Allt í einu gekk ég bak orða minna og fékk mér bíl. Þetta er gamall bíll systur minnar, foreldrar mínir áttu hann um hríð og við Hófí, kærastan mín, höfðum töluverð afnot af honum. Síðan slaknaði hann og bilaði þangað til að þau nenntu honum ekki lengur og gáfu okkur hann. Það kemur sér vel. Aðstæður í fjölskyldunni eru slíkar að við þurfum að vera á töluverðu flakki milli landshluta, vestur í Súgandafirði fimm daga vikunnar og tvo daga fyrir sunnan. Það verður ekki hjá því komist.

Allt í einu hafa fleiri tölur áhrif á mig en áður, fram að þessu voru það breytilegu vextirnir á viðbótarláninu mínu og stýrivextirnir og verðbólgan og líkamshitinn og vinnuvikan og símanúmerið hennar Hófíar, sem mér þykir alltaf jafnvænt um. Núna eru blóðrauð skilti út um allan bæ sem öskra á mig í hvert skipti sem talan hækkar. Mér finnst ég vera kominn í klúbb. Þegar ég mæti í vinnuna eða matarboð og einhver talar um bensínverðið get ég sagt: „Úff, já, það bara rýkur upp,“ eða „Já, einmitt, og allt út af einhverjum vesalingi í Kreml,“ eða „Já, maður ætti ekkert að vera að keyra svona mikið en stundum er ekki hjá því komist“.“ Og ég er farinn að halda að ég hafi lifað þessum bíllausa lífsstíl til þess að aðgreina mig frá öðrum, til þess að vera ekki hluti af samfélaginu.

Við erum samfélag bílstjóra, það er ekki æskilegt eða fallegt eða spennandi, en það er staðreyndin. Við Íslendingar erum bílstjórar. Þjóðfáninn ætti að vera rauður kross á hvítum krossi á svörtum bakgrunni, eldur, ís og olía. Það sem rennur um æðar okkar.