Nú er lokið aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem haldinn var á Grand hótel í Reykjavík dagana 17. og 18. október og var fundurinn að mestu pappírslaus þar sem reynt var að sporna við niðurrifi skóga og minnka mengun þar af leiðandi (sem er bara hið besta mál).

Samtök í dauðri hugmyndakrísu

En skoðum aðeins þær tillögur sem fundurinn samþykkti varðandi strandveiðar sem framundan eru (ekki voru þær gæfulegar). Þær eru nánast óbreyttar frá því sem verið hefur nema að fundurinn krefst þess að veiðitímabilið verði lengt í báða enda og bætt við einum degi í viku til róðra, verði sem sagt fimm í staðinn fyrir fjóra (meiri eldsneytis­eyðsla – meiri mengun).

Það er stórmerkilegt að ekki skuli koma fram aðrar tillögur því að á aðalfundi 2018 mátti finna eftirfarandi texta: Aðalfundur L.S. samþykkir að strandveiðikerfið verði þróað áfram til að bæta afkomu útgerða strandveiðibáta. (Það er spurning hvort það eigi að gerast á næstu 20 árum en þá er líka útlit fyrir að kerfið verði liðið undir lok þar sem ekki verður um nýliðun að ræða með núverandi tillögum L.S.) Ekki er að sjá að tillögur aðalfundar L.S. 2019 bæti afkomu útgerða strandveiðibáta. Innan forystu Landssambands smábátaeigenda virðast fáir spá í hvort hægt væri að draga úr eldsneytisnotkun og minnka mengun í þessu strandveiðikerfi. Þar hjakka menn í sömu bárunni og komast ekkert áfram.

2,3 milljónir lítra

Á síðustu strandveiðivertíð sem lauk í enda ágúst fóru strandveiðibátar 15.774 róðra samkvæmt gögnum fiskistofu. Ef við gefum okkur það að meðal eldsneytisnotkun hafi verið 150 lítrar á bát í róðri (sem ég tel vera mjög hóflega áætlun) og margföldum það með róðrafjöldanum þá er verið að tala um 2.366.100 – tvær milljónir þrjúhundruð sextíu og sex þúsund og eitthundrað lítra sem strandveiðiflotinn fór með í olíu til að ná í 10 þúsund tonn. (Það er bara stórvirkur togari sem færi með meira eldsneyti til að ná í þennan afla.) En málið snýst ekki um það. Það snýst um að draga úr eldsneytisnotkun og minnka mengun strandveiðiflotans eða er það ekki það sem allt snýst um í dag? Eða eigum við bara að horfa í hina áttina og láta sem við sjáum þetta ekki. Eða er það hið besta mál að eyða sem mestu eldsneyti í þetta (olíufélögin myndu ekki hafa neitt á móti því)? Strandveiðisjómenn labba bara upp í hlíð og gróðursetja nokkur tré í staðinn. En er það svo? Það held ég ekki.

50 – 60% sparnaður

Með breyttu strandveiðikerfi mætti minnka þetta magn um 50-60%.

Strandveiðikerfið er eina kerfið innan fiskveiðikerfisins á Íslandi þar sem ekkert er gert í því að reyna að minnka elsneyti og þar af leiðandi mengun. Aðrir útgerðaflokkar eins og togarar, uppsjávarskip, dragnót, nýjustu línubátar, þar er reynt að ná meiri hagkvæmni í eldsneyti og minni mengun. Í strandveiði hvetja stjórnvöld til eldsneytis­eyðslu og mengunar með óbreyttu strandveiðifrumvarpi.

Er það boðlegt, með tilliti til þeirrar umræðu sem er í gangi í þjóðfélaginu í dag um mengun og kolefnaspor og sótspor þar og alstaðar, þá er þetta strandveiðikerfi það vitlausasta sem fundið hefur verið upp með tilliti til þessa þáttar.

Er þetta skynsemi?

Eflaust eru einhverjir sem sjá skynsemi í að eyða sem mestu eldsneyti og menga sem mest til að ná í strandveiðikvótann. Allavegana virðist forustusveit Landssambands smábátaeigenda og stór hluti strandveiðimanna ekki sjá ástæðu til að horfa á þennan þátt og koma með tillögur til úrbóta.

1 – 1,5 milljónir lítra

Það er hægt að minnka eldsneytisnotkun um ca. 1 – 1,5 milljónir lítra með bættu strandveiðikerfi sem yrði hagstætt fyrir land og þjóð. Minna eldsneyti þyrfti að flytja til landsins, þar minnkar mengun líka því dallurinn sem flytur eldsneytið mengar líka. En hvort áhugi er fyrir því hjá ráðamönnum þjóðarinnar að koma þessu í betra horf, það á eftir að koma í ljós. Allavegana talar Alþingi um að allt sé að fara til andskotans vegna dísilmengunar í landinu. Það er kannski ekkert að marka þá umræðu sem fer fram á Alþingi þar sem rætt er um að allir eigi að vera svo umhverfisvænir og grænir.

Það hlýtur að vera krafa almennings í landinu og þeirra sem hafa farið út í rafvæðingu og þeirra sem láta sig þessi mál varða að Alþingi gangi í fararbroddi og breyti strandveiðilögunum með þeim hætti að sparnaður náist í eldsneytisnotkun í strandveiðum og þar af leiðandi minni mengun fyrir land og þjóð.

Í framhaldi af þessari grein hef ég sett fram hugmynd að breyttu strandveiðikerfi (sem birt verður síðar) sem myndi verða hagkvæmt fyrir bæði strandveiðisjómenn og þjóðina í heild sinni. Ég veit hins vegar að þetta mun falla í grýttan jarðveg á mörgum stöðum.

En eru það ekki heildaráhrifin sem þarf að horfa á?

Eru strandveiðisjómenn tilbúnir að láta lönd og leið þá mengun sem þeir valda?

Eða eru þeir tilbúnir að horfa í eigin barm og gera betur sjálfum sér og öðrum til heilla?

Er Alþingi Íslendinga tilbúið að horfast í augu við veruleikann og breyta til hins betra?