Alræði kapítalismans er að líða undir lok. Um allan heim eru nú þáttaskil. Í umhverfis-, dýraverndunar- og mannréttindabaráttu eru ekki lengur gerðar málamiðlanir við fjármagnsvald og stórkapítalisma. Aðgerðaráætlanir heimsins eru í endurnýjun og þær verða æ rauðari. Hið nýja græna er eldrautt! Á ögurstundu þegar leitað er eftir nógu róttækum lausnum vegna yfirvofandi hörmungarástands á jörðinni þá kemur umhverfisvæn réttlætishugsjón sósíalismans óvænt sterk inn. Því það vill svo til á okkar sögulegu tímum að þær aðgerðir sem reynast samfélagslega réttlátar og stuðla að jafnrétti, lýðræði og valdeflingu almennings, þær sömu aðgerðir sporna við eyðingaröflum sem ógna loftslagi og náttúru. Fyrir öfga-hægri-menn er þetta óþægileg örlagagletta. Og líka fyrir þá vönkuðu vinstrimenn sem klikkuðu á því að standa vaktina og lögfesta loforð sín um aðgerðir gegn loftslagsvá. En afneituninni hér á landi er viðhaldið af ósvífni. Fuglahræður sérhagsmuna-afla reyna að fæla okkur smáfuglana og innblása ótta við ímyndað alræði, upplausn, glundroða, verðbólgu og sundrung, nú þegar lýðræðið er loksins að fá byr undir báða vængi.

Við lifum tíma algjörra umskipta í viðmiðunum okkar (e. paradigm shift). Slíkt gerist ekki oft í sögunni. Viðmið okkar eru ekki einungis að umpólast heldur taka mælikvarðarnir aðra stefnu. Og við fáum tækifæri til að taka þátt í þeirri stefnubreytingu. En þangað til breytingin verður er erfitt að tala um pólitík; hægri og vinstri og öll viðmiðunarhugtökin virðast skökk. Það er ekki bara að nýfrjálshyggjan hafi hertekið helstu hugtök eins og frelsi og réttlæti heldur eru allar okkar helstu hugsjónir að endurnýjast.

Það kom á óvart að Sósíalistaflokkur Íslands kæmi ekki betur út úr prófum ungra umhverfissinna um loftslagsáætlanir stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar. Heildræn aðgerðaráætlun Sósíalista byggð á metnaðarfullu grasrótarstarfi, samræðu og framsýnum rannsóknum er róttækasta aðgerðaráætlun allra íslenskra flokka fyrir þessar kosningar og sú eina sem er í raun sannkölluð langtímaáætlun. Þegar ég fór að skoða málið, ekki til að heimta hærri einkunn eins og sumir flokkar heldur til að skilja þversögnina, þá kom í ljós að kvarðinn sem ungu umhverfissinnarnir bjuggu til – sem var í sjálfu sér stórgott framtak – sá mælikvarði virðist að hluta til byggja á úreldum hugsunarhætti ættuðum úr nýfrjálshyggu.

Það er því eins og kvarðinn hafi ekki náð að mæla hið róttæka markmið umhverfisvænnar aðgerðaráætlunar Sósíalistaflokks Íslands sem er eina heildstæða aðgerðaráætlunin í boði. En af því að hún er heildstæð og sett fram í öllum málaflokkum er erfitt að setja hana fram sem viðskiptaáætlun eða koma henni fyrir á kvarða. Ef kvarðinn tekur ekki til nógu stórs samhengis verður mælingin skökk. Grænar fjárfestingar stórfyrirtækja fá hærri einkunn en róttækt afnám neyslumenningar kapítalismans. En þær fjárfestingar eru oft ekki grænar nema á ytra borði. Það er vísindalega sannað að stórfyrirtæki í kapítalísku kerfi fórna aldrei sinni eigin hagsæld til lengri tíma heldur alltaf almannagæðum nema þeim sé gert það skylt með þéttri lagasetningu. Þá lagasetningu vantar okkur og hún þarf að vera studd af nýrri stjórnarskrá.

Mælikvarða allra umhverfissinna þarf að endurnýja. Eins og stjórnmálaumræðu okkar sem er dottin úr samhengi almannahagsmuna fyrir svo löngu síðan. Í krossa- og kosningaprófum fjölmiðla nú fyrir kosningar eru valkostirnir yfirleitt fastir í gömlum andstæðupörum og þyrfti að skrifa skýringar við hvern lið ef maður ætlaði að skýra umbóta- og umbyltingaráætlun Sósíalismans. En í umræðu um stjórnmál á Íslandi nú fyrir kosningar er lítið ráðrúm gefið til útskýringa eða pælinga. Þegar við hinsvegar komumst í heiðarlega og gagnrýna samræðu, þá kemur í ljós að valkostirnir eru allt aðrir en við getum ímyndað okkur eftir áralangan heilaþvott nýfrjálshyggjunnar. Því nú eftir hrun og heimsfaraldur eru valkostirnir orðnir skýrir:

Áður voru rökin gegn fjárfestingu í jöfnuði og umhverfislegum umbótum þau slíkt væri fjárhagslega óábyrgt og setti kerfið á hliðina. En nú dugar ekki lengur að hræða almenning með þeim rökum því raunveruleg ógn er mun meiri, að kerfin okkar fari einmitt endanlega á hliðina ef ekki er fjárfest í bættum jöfnuði og betra umhverfi nú þegar.

Næsta ríkisstjórn hefur í hendi sér hvort fjármagnsöflum verður áfram afhent mikið magn fjár úr ríkissjóði samkvæmt úreltri aðgerðaráætlun nýfrjálshyggjunnar. Eða hvort því flæði opinbers fjár verður veitt í uppbyggingu á endurbættu samfélagi þannig að það nýtist til jafnaðar og grænvæðingar og komi öllum almenningi vel en ekki aðeins sérvöldum stórfyrirtækjum sem fara með hagnaðinn út úr kerfunum okkar en ekki inn í þau aftur eins og okkur hefur verið talin trú um.

Ég vil taka það fram vegna tilhneigingar til svart-hvítrar einföldunar umræðunnar að ég sem sósíalisti er ekki á móti frjálsri samkeppni. Því meiri fjölbreytileiki í iðnaði og allri framleiðslu og sköpun, og því meiri nýsköpun í menningu, menntun og velferðarmálum, því betra. Við þurfum almennilegan lífrænan sprotavöxt sem skilar sér til heildarinnar. En það þarf að endurskilgreina frelsið í samkeppninni ef það á ekki að snúast bara um að hið opinbera ryðji brautina fyrir einokun stórfyrirtækja og aðstoði þau við að hvítþvo sig af þrælkun og mútum í þróunarlöndum.

Við þurfum að virkja frelsi okkar til athafna og tjáningar, endurnýja grundvallar hugsjónir velferðarríkisins og vinda ofan af nýfrjálshyggjunni. Núverandi valdhafar gangast reyndar ekki við þessari skaðræðis sérhagsmunastefnu enda er afneitun á afleiðingum og heildarsamhengi einmitt einkennandi fyrir ábyrgðarleysið sem liggur núverandi stjórn- og markaðskerfi til grundvallar. Það er því næsta ómögulegt að kalla valdhafana til ábyrgðar á orðum og gjörðum, þeir búa bara til nýtt kynningarefni um að svart sé hvítt. En við getum það ef við gefumst ekki upp. Við sjáum í gegnum blekkingarnar. Við sjáum rautt. Reynsluþekking okkar er dýru verði keypt. Skilum rauðu!