„Þetta hef ég aldrei gert áður, þess vegna veit ég að ég get það,“ er setning sem nær vel yfir tímana sem við lifum nú. Það þarf kjark til að gera tilraunir, úthald til að klára málin og við þurfum að vera óhrædd við að nálgast hlutina með nýjum hætti. Þá skiptir máli að sýna sér mildi þegar eitthvað mistekst því það er svo margt sem við höfum ekki gert áður. Að öllu samanlögðu er nýsköpun mikilvæg í breytilegum heimi á spennandi tímum með ótal áskorunum eins og við höfum fundið fyrir. Á landsbyggðarráðstefnu Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, sem ber yfirskriftina Eldhugar, ætlum við að spegla okkur í sögum, eiga samtalið og kortleggja ríkidæmi landsbyggðanna út frá þessari nýju sviðsmynd.

Fyrir hönd allra landsbyggða

Einstaklingar fóstra sitt nærumhverfi og gæta hagsmuna sinna en við verðum að vera með metnað fyrir hönd allra landsbyggða, fyrir landið allt, hugsa Ísland sem eitt atvinnusvæði sem getur sannarlega náð forskoti með sérstöðu sem skapast við það að nálgast viðfangsefni samtímans með skapandi hætti. Covid hefur sýnt og sannað að víða er óhætt að stokka spilin að nýju og við þurfum að nýta það tækifæri – og ekkert múður. Áfram alls konar!

Sköpunarkraftinum gefinn laus taumur

Landsbyggðadeildir Félags kvenna í atvinnulífinu tóku höndum saman og héldu ráðstefnu á tímum heimsfaraldurs og í ár er það FKA Norðurland sem býður heim. Landsbyggðarráðstefna FKA, Eldhugar, verður í Háskólanum á Akureyri þann 23. september nk. og er opin almenningi. Þar verður sköpunarkraftinum gefinn laus taumur og fjallað um mikilvægi þess sem hér hefur verið nefnt, að vera að búa til nýtt en líka kynna það sem til er.

Við getum öll haft áhrif á þróun mála í stóru og smáu og mörg okkar hafa verið að sinna vinnunni og verkefnum frá eldhúsborðinu á tímum Covid. Margt er breytt, störf án staðsetninga eru langt komin með að vera viðtekin stærð og leið sem gagnast öllum til hagsbóta. Almenningur er hvattur til að mæta í Háskólann á Akureyri eða nýta sér streymi í gegnum fjarfundabúnað og komast að því að seigla gustar af öllum sem ryðja brautir og þá af fyrirlesurum sem stíga þar á stokk. n