Sigríður Hagalín Björnsdóttir hefur í skáldsögum sínum skotið lífinu sjálfu ref fyrir rass að því leyti að svo virðist sem lífið hafi líkt eftir listinni, fyrst með veirunni í Eylandi og síðan með eldsumbrotum á Reykjanesi í Eldunum.

Í upphafi bókarinnar Eldarnir – ástin og aðrar hamfarir, vitnar hún í bók Freysteins Sigmundssonar, Magnúsar Tuma Guðmundssonar og Sigurðar Steinþórssonar þar sem talað er um að bræðslusvæðið í möttlinum þar sem bergkvikan myndast sé eins konar eldhjarta Íslands.

Við höfum á síðustu misserum fundið vel fyrir kraftinum sem býr í þessu eldhjarta landsins, krafti sem er bæði skapandi og eyðileggjandi. Og nú er eldgos hafið að nýju á svipuðum slóðum og í fyrra.

Um leið og við eigum tilvist landsins okkar eldsumbrotum að þakka þurfum við að búa okkur undir það versta en vona um leið það besta. Ríkisstjórnin hefur frá því óróinn á Reykjanesi hófst verið með puttann á púlsinum. Við erum við öllu búin með okkar færustu vísindamenn, sem eru í hópi færustu vísindamanna heimsins á þessu sviði, til ráðgjafar í samvinnu við Almannavarnir og heimamenn.

Fólk hefur skiljanlega áhyggjur við þær aðstæður sem eru uppi. Við vorum heppin að eldgosið í Geldingadölum var máttlítið. Við vorum þegar það gos hófst reiðubúin að ryðja upp varnargörðum til að vernda Suðurstrandarveg en ekki kom til þess. Og við erum viðbúin að verja eins og kostur er vegi til og frá byggðinni á Reykjanesi eftir því sem gosinu vindur fram. Síðustu ár hefur einnig verið unnið að því að byggja upp varaflugvelli á Egilsstöðum og Akureyri auk þess sem tilvist Reykjavíkurflugvallar hefur verið varin.

Hugur minn og annarra landsmanna er hjá þeim sem búa næst eldsumbrotunum. Það er erfitt að búa við slíkt og mikið álag á börn og fullorðna. Við þau vil ég segja að svæðið er vaktað eins og hægt er og brugðist verður við því sem verður af öllum þeim krafti sem samfélagið býr yfir.