Félagi minn Jónas tekur jólahátíðirnar föstum tökum. Hann fer alla leið í gjöfunum. Á ákveðinn hátt er þetta skemmtilegt. Það er gaman að vera vinur Jónasar. Stundum fer þetta mikla hátíðarskap mannsins þó svolítið yfir strikið að mínu mati. Ég kynntist Jónasi fyrir þrettán árum, þegar hann flutti í húsið við hliðina á okkur með konu sinni og börnum. Við náðum strax vel saman.

Á jóladaginn fyrsta — þetta var árið 2007 — bankaði Jónas uppá eldhress snemma að morgni. Við vorum ennþá á náttfötunum, að háma í okkur Macintosh. Það skipti engum togum: Hann færði mér talandi páfugl á grein.

Ég varð eilítið undrandi. Það er ekkert grín að halda páfugl og hann hefur mjög hvellan talanda. Maður hrekkur stundum í kút. En hvað um það. Þetta var skemmtilegt. Annað árið var gjöfin frá Jónasi hófsamari. Hann gaf mér tvær dúfur. Ég kom þeim fyrir í litlum kofa hér í garðinum. Þriðja jóladaginn færðist Jónas í aukana í fiðurfénaðinum. Þá gaf hann mér, skælbrosandi hér í dyragættinni, þrjú spök hænsn. Ég þakkaði kærlega fyrir þær. Gott er að njóta eggjanna. Ég gaf honum bók. Spennusögu eftir Arnald.

Fimmfaldi hringurinn

Mig var á þessum tímapunkti farið að gruna að Jónas væri að nota jólagjafir til að losa sig út úr búskap af einhverju tagi. Þessar grunsemdir mínar fengu byr undir báða vængi þegar hann á fjórða jóladegi mætti hér í forstofuna, eldhress að vanda, með fjögur feit naut. Við erum að tala um fnæsandi kvikindi með horn og læti. Mér brá smá. Ég verð að játa það. En auðvitað var ég þakklátur, fyrst og fremst. Ég gaf honum konfekt.

Á fimmta jóladegi kom Jónas mér á óvart. Ég veit ekki hvað hann var að spá. Hann færði mér fimmfaldan hring. Þetta er fremur stórt fyrirbrigði og ég geymi þetta úti í bílskúr við hlið nautanna, en mér er fyrirmunað að skilja hvað ég á að gera við þetta. Ég gaf honum trefil.

Sjötta gjöfin á sérstakan stað í hjarta mínu. Þetta var árið sem ég gaf Jónasi leðurhanska, en hann færði mér sex þýða þresti. Það þótti mér frumlegt. Kosturinn við þessa gjöf var sá að það hvíldi ekki á mér að hafa um fyrir þessum fuglum um árabil heldur gat ég sleppt þeim lausum þegar voraði. Sama var uppi á teningnum með sjöundu gjöfina. Satt að segja mátti litlu muna að ég byrsti mig við Jónas þegar hann færði mér hana, þótt auðvitað kynni ég að meta þann góða hug sem að baki lá. Hann gaf mér sjö hvíta svani. Það var vesen að hafa þá innandyra, því svanir geta verið herskáir, en svo fóru þeir sömu leið og þrestirnir um vorið. Það var ágæt lausn. Ég gaf Jónasi kaffibaunir.

Vaxandi þreyta

Nú var örlítil þreyta komin í mig, verð ég að játa. Gat ekki maðurinn slakað á? Var þetta gjafaæði raunverulega í anda jólanna? Áttunda árið færði hann mér átta kýr. Jesús Pétur! Ég gaf honum rauðvínsflösku. Á níunda jóladag kemur svo Jónas hér glaðhlakkalegur með ljósmynd af níu skipum — allstórum — og gefur mér þennan flota. Hvað átti ég að gera við níu skip? Er kvóti með þeim? spurði ég, og vonaði inni í mér að hann skynjaði pirring minn, en hann hló bara. Ég gaf honum slifsi.

Eftir tíu ára kynni bankaði svo Jónas hér upp á, orðinn allríkur held ég, og færði mér tíu hús. Nei, heyrðu nú Jónas! hrópaði ég þá. Ég get ekki þegið þetta. Húsin voru öll á besta stað, á torgi. Þetta var alltof mikið. En Jónas glotti bara, klappaði mér á öxlina og sagði mér að slaka á. Ég gaf honum símahulstur.

Í hittifyrra keyrði um þverbak. Jónas gaf mér ellefu hallir álfa. Mig rak í rogastans. Hvað á ég að gera við slíkar fasteignir? Og ég kann engin tök á álfum. Ég gaf honum penna.

Í fyrra gaf Jónas mér svo tólf lindir tærar. Það var í raun gjöf upp á nokkrar landareignir víða um land þannig að ég er nú orðinn stóreignamaður og þarf að standa straum af alls konar umsýslu. Ég gaf honum húfu.

Nú í ár er ég að hugsa um að segja Jónasi að við ættum að reyna að tóna þessar gjafir niður. Það þarf ekki að gefa svona mikið. Mér nægir að fá Jónas í heimsókn. Rólegt spjall er góð gjöf. Að maður finni kærleik frá vini sínum, það nægir mér. Í ár ætla ég bara að gefa honum hlýtt og innilegt faðmlag og vona að hann fatti þetta.

Ég sé hins vegar að hann er kominn með þrettán hesta hér í garðinn. Fjandinn.