Einn helsti fyrirboði jólanna birtist í síðustu viku þegar rafræn útgáfa Bókatíðinda leit dagsins ljós. Þar er að finna jákvæðar vísbendingar um að íslenskir bókaútgefendur séu hvergi af baki dottnir þrátt fyrir minnkandi bókasölu á síðustu árum. Það er sérstakt fagnaðarefni að skáldverkum fyrir börn fjölgar um 47 prósent milli ára og í flokki ungmennabókmennta er fjölgunin 39 prósent milli ára.

Stjórnvöld réðust á síðasta ári í aðgerðir til að styrkja stöðu íslenskrar tungu. Meðal annars voru afgreidd lög frá Alþingi um endurgreiðslu hluta kostnaðar við útgáfu bóka á íslensku. Er þar gert ráð fyrir um 400 milljóna króna stuðningi árlega. Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu höfðu 150 umsóknir um endurgreiðslu borist vegna bókaútgáfu á fyrri hluta ársins.

Lestur er lykilþáttur í varðveislu tungumálsins en því miður hafa rannsóknir staðfest að lestrarkunnátta og lesskilningur íslenskra barna er minni en gerist í nágrannalöndunum. OECD gerði þetta til að mynda að umræðuefni í nýlegri skýrslu um íslensk efnahagsmál. Þar var lagt til að lestur yrði lengur kjarnafag í grunnskólum.

Besta leiðin til að bæta og auka lestur íslenskra barna er að tryggja aðgengi þeirra að bókum. Við erum heppin að eiga marga frábæra höfunda barnabóka þannig að öll börn ættu að geta fundið eitthvað sem hæfir þeirra áhugasviði. Foreldrar gegna auðvitað gríðarlega mikilvægu uppeldishlutverki þegar kemur að lestri. Börn sem alast upp við það að lesið sé fyrir þau reglulega öðlast betri skilning og tilfinningu fyrir tungumálinu en þau sem ekki er lesið fyrir.

Degi íslenskrar tungu verður fagnað næstkomandi laugardag. Í fyrra var Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, heiðraður á þessum degi. Eiríkur hefur verið óþreytandi við að benda á þær hættur sem íslenskan stendur frammi fyrir. Í fullveldisávarpi sem hann hélt fyrir tæpum tveimur árum benti hann á að það væri hreint ekki sjálfgefið að svo fámenn þjóð eigi sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins. Það er auðvitað ekki sjálfgefið og heldur ekki að hér sé blómleg útgáfa bóka á íslensku.

Eiríkur sagði einnig að ef íslenskan breyttist mikið eða hætti að vera lifandi tungumál „missum við ekki bara bein tengsl við Völuspá og Njálu, heldur líka við Íslenskan aðal og Íslandsklukkuna, Engla alheimsins og Kaldaljós, og meira að segja Arnald og Yrsu“. Það er undir okkur öllum komið að tryggja að svo verði ekki. Aðgerðir stjórnvalda munu aldrei duga einar sér til að tryggja framtíð íslenskunnar heldur þarf allt samfélagið að leggja sitt af mörkum. Góð byrjun væri að lesa meira fyrir börn og halda að þeim góðum bókum.