Sorgarmiðstöð hóf starfsemi í Lífsgæðasetri St.Jó. í Hafnarfirði þann 12.september 2019 sem samvinnuverkefni fjögurra grasrótarfélaga sem hafa áratuga reynslu af því að styðja aðstandendur. Þetta eru félögin Ný dögun, Birta, Ljónshjarta og Gleym mér ei. Með stofnun Sorgarmiðstöðvar varð til heildstætt úrræði fyrir syrgjendur á einum stað en eftir því var kallað af fagfólki og öðrum sem vinna að velferð syrgjenda og aðstandenda þeirra. Hlutverk Sorgarmiðstöðvar er að styðja einstaklinga og fjölskyldur í sorg og efla samfélagsumræðu um mikilvægi sorgarúrvinnslu. Landlæknisembættið er verndari Sorgarmiðstöðvar og flutti Alma Möller landlæknir ávarp á opnunarhátíðinni.

Sorg er ekki sjúklegt ástand eða heilsubrestur. Sorg felur í sér eðlileg viðbrögð við andláti ástvinar. Staðreyndin er hins vegar sú að það getur orðið margþættur og jafnvel varanlegur heilsubrestur vegna djúprar sorgar, fái einstaklingur í þeirri stöðu ekki stuðning með fræðslu og/eða beinni aðhlynningu. Rannsóknir hafa sýnt að góð úrræði í sorg fækka geðheilbrigðisvandamálum og flýta félagslegri endurhæfingu syrgjenda og því mikilvægt að geta boðið uppá slíka þjónustu/úrræði. Þjónusta Sorgarmiðstöðvar er viðbótarkostur við þjónustu trúfélaga og annarra á sviði sorgarúrvinnslu. Að bjóða upp á úrræði í sorg er á margan hátt viðkvæm starfsemi og því er mikilvægt að gegnsæi ríki um alla starfsemi Sorgarmiðstöðvar. Miðstöðin er hins vegar ekki meðferðarúrræði en hún hefur á að skipa fólki með margháttaða reynslu, bæði í gegnum eigin missi og með menntun, sem reynist vel í þeim mannlegu samskiptum sem eru aðal- og lykilatriði í því að mæta fólki í sorg.

Viðhorf til sorgarúrvinnslu hafa breyst á síðustu árum. Einu sinni þótti það dygð að „bera harm sinn í hljóði“ sem þýddi í raun að margir grófu sorgir sínar djúpt í eigin hugskoti og leyfðu sér aldrei syrgja. Augu fólks eru að opnast fyrir því að leita sér hjálpar í sorginni og þiggja það sem í boði er. Það að vera syrgjandi á tímum covid-19 með þeim skorðum sem eru settar við dánarbeð og útfarir og með tilheyrandi fjarlægðartakmörkunum er fordæmalaus staða. Sorgarmiðstöð leggur sig fram um að veita þessum hópi þjónustu í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnalæknis.

Á þessu fyrsta starfsári hafa fjölmargir nýtt sér þjónustuna sem sýnir að mikil þörf er fyrir úrræðin sem Sorgarmiðstöð býður upp á það er ráðgjöf, fræðslu og beinan stuðning. Mikil aðsókn hefur verið á fræðsluerindið, Sorg og sorgarviðbrögð fyrir þau sem hafa nýlega misst sem Sorgarmiðstöð býður reglulega upp á í samvinnu við Landspítalann. Stuðningshópastarf fyrir fyrir þau sem hafa misst; barn, maka, foreldri, systkini, misst í sjálfsvígi eða af völdum fíknar hefur fest sig í sessi. Hópastarf í lokuðum hópi, þar sem byggt er upp traust með fagfólki og fólki með reynslu af missi, hefur löngu sannað gildi sitt sem liður í sorgarúrvinnslu. Það, að geta talað við aðra sem eru að upplifa það sama og þú skiptir máli til dæmis pælingar um hvenær á að fjarlægja tannbursta þess látna úr glasinu, taka niður giftingarhringinn og hvernig á að komast í gegnum afmælisdaga eða hátíðir. Eins vel og fjölskylda og vinir vilja gera, þá er það allt annað samtal um sorgina en þegar þú talar við einhvern með sömu reynslu. Á þessu fyrsta starfsári hefur Sorgarmiðstöð haldið 24 fræðsluerindi og verið með 16 stuðningshópa.

Opið hús og djúpslökun hefur mælst vel fyrir á dagskránni og Gönguhópurinn SKREF fyrir SKREF er nýstofnaður við Sorgarmiðstöð. Göngur eru hjálplegar þegar tekin eru skrefin framávið í sorgarferlinu en hreyfing og útivera eru meðal þeirra bjargráða sem syrgjendur nefna að oftast hjálpi í sorginni. Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar www.sorgarmidstod.is undir Dagskrá má sjá það sem er í boði á næstunni. Einnig er hægt að hringja eða senda tölvupóst.

Á heimasíðu Sorgarmiðstöðvar má finna góð ráð fyrir syrgjendur og upplýsingar um sorg og sorgarviðbrögð. Þar má einnig finna ráðleggingar fyrir þá sem standa syrgjendum næst og þá sem standa aðeins fjær eins og nágranna eða vinnufélaga. Það versta sem við gerum er að forðast samskipti af ótta við að segja eitthvað rangt, særandi eða heimskulegt. Við fæðumst ekki með þá þekkingu að vita hvernig við berum okkur að í nálægð við syrgjendur en það má lesa sér til og fá ráðleggingar. Sorgarmiðstöð hefur einnig veitt hópstuðning eftir skyndileg andlát í skólum og á vinnustað á árinu og þannig stutt við vinnufélaga og vini. Þessu tengt vinnur Sorgamiðstöð að gerð leiðbeininga fyrir kennara og starfsfólk skóla um hvernig má mæta börnum í sorg og styðja þau í gegnum sorgarferlið.

Unnið er að frumvarpi um sorgarorlof fyrir þau sem hafa misst barn sem er mikið framfaraskref og til vitnis um viðhorfsbreytingu til sorgarúrvinnslu. Fyrir eru lög í landinu sem gera foreldrum sem missa barn seint á meðgöngu og í fæðingu kleift að syrgja en Sorgarmiðstöð hefur talað fyrir því að þeim sem missa barn eftir fæðingu verði sömuleiðis gert kleift að taka sér leyfi frá störfum án tekjuskerðingar til að vinna í sinni sorg og byggja sig upp eftir áfallið. Með góðum stuðningi má koma í veg fyrir mögulegan og varanlegan heilsubrest foreldra og þar með brottfall þeirra úr vinnu og þátttöku í samfélaginu, til lengri tíma litið. Þá má ekki gleymast að oft eru foreldrar einnig að styðja við eftirlifandi systkini sem þurfa svigrúm, stuðning og aðstoð til að halda áfram lífinu í breyttum aðstæðum. Sorgarmiðstöð hefur lagt til að sorgarorlof nái einnig til missis maka frá ungum börnum og hefur sent til félagsmálaráðuneytis minnisblað þess efnis.

Þrátt fyrir að jákvæð viðhorfsbreyting til sorgarúrvinnslu hafi orðið og fólk sé í auknu mæli að nýta úrræði sem standa til boða í sorg þá erum við ekki enn komin á þann stað að sorgarúrvinnsla verði skilgreind sem úrræði í starfsendurhæfingu eftir missi ástvinar. Sorgarmiðstöð vinnur nú að því að þetta verði leiðrétt í samvinnu við yfirvöld.

Eftir þetta fyrsta starfsár er stjórn Sorgarmiðstöðvar efst í huga þakklæti til þeirra sem bæði hafa notfært sér þjónustuna og stutt starfsemina með beinum og óbeinum hætti.

Höfundar eru stjórnarformenn Sorgarmiðstöðvar.