Í gær, 13. mars, voru fjörutíu ár liðin frá stofnfundi Kvennalistans. Fjórir áratugir virðast bæði stuttur og langur tími. Langur í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á samfélagi okkar – en stuttur þegar rætt er við þær konur sem að stofnun Kvennahreyfingar og Kvennalista komu, sem ég gerði við vinnslu greinar fyrir helgarblað Fréttablaðsins.

Eftir fjögurra áratuga baráttu vita þessar konur að henni er ekki lokið – en hún hefur breyst. Kvennalistakonur bentu á sínum tíma á hrópandi misrétti launa, erfiðar aðstæður kvenna á vinnumarkaði, fá leikskólapláss og ósýnileika kvenna í stjórnmálum.

Þær höfðu sannarlega tölulegar staðreyndir máli sínu til stuðnings, en nú liggur munurinn meira í menningarbundnum þáttum sem geta verið duldari.

Konur hafa fyrir margt löngu til jafns við karla fyllt störf á vinnumarkaði þó enn greinist óleiðréttur launamunur kynjanna rúm 10 prósent. Ein helsta skýring launamunar kynjanna er kynbundin skipting í störf en einnig eru karlar oftar í hæsta launastigi og vinna fleiri yfirvinnustundir. Á meðan enn er munur á launum kynjanna reynist mörgum erfitt að nýta sér fæðingarorlof sem skipta skal jafnt á milli foreldra, að fullu, enda laun skert á meðan á orlofi stendur. Eins getur einhleyp móðir sem á barnsföður á lífi ekki nýtt hlut föður þó að framlags hans njóti ekki við.

Um fjörutíu prósent hjónabanda á Íslandi enda með skilnaði og eru sambúðarslit þá ekki talin með. Í meirihluta skilnaða færast lögheimili barna til móður og það er enn samþykktara að faðir sé vanvirkur eða fjarverandi í uppeldi barna sinna en móðir.

Tilkynningum um ofbeldi í nánum samböndum fjölgaði um tæplega 13 prósent fyrstu sex mánuði liðins árs, samanborið við árin á undan. Í um 80 prósentum tilfella er árásaraðilinn karl og í tæplega 80 prósentum tilfella er brotaþolinn kona.

MeToo-bylgjan hefur heldur betur varpað ljósi á meinsemd sem lengi hefur grasserað í skjóli þagnar, kynferðislega áreitni og ofbeldi þar sem konur eru oftar en ekki þolendur.

Svo er það álagið á heimilinu, þriðja vaktin: yfirsýn og ábyrgð á skipulagi fjölskyldulífsins, ósýnilegu verkefnin sem ansi víða eru enn á herðum kvenna, sem auka á streitu enda varla að ástæðulausu að meirihluti þeirra sem leita til starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK séu konur.

Meirihluti þeirra sem útskrifast úr háskóla eru konur. Það er að mörgu leyti dæmi um frábæran árangur baráttu undanfarinna ára – en það er bara ekki nóg.