Vissulega mættu tímarnir vera aðeins skemmtilegri. Engin ástæða er þó til að láta hugfallast. Það má gleyma sér í mörgu, eins og því að lesa góðar bækur eða hlusta á eftirlætistónlistina heima hjá sér. Erfitt er að láta sér líða illa við þannig aðstæður, maður er kominn í sinn einkaheim, sem er yfirleitt alltaf jafn notalegur. Allavega töluvert notalegri en hversdagsleikinn þarna úti, sem byggist á alls kyns höftum og bönnum, sem draga auðveldlega þrótt úr fólki.

Seint verður sagt að stjórnmálamennirnir hafi verið iðnir við að telja kjark í þjóðina og blása henni bjartsýni í brjóst á COVID–tímum. Þetta er nokkuð skrýtið því þegar á móti blæs eiga stjórnmálamenn að sýna hvað í þeim býr og vera góðir leiðtogar. En kannski eru stjórnmálamennirnir smeykir við að tala máli bjartsýninnar eða gefa í skyn að lífið geti verið, þrátt fyrir allt, bara nokkuð skemmtilegt. Það færi örugglega öfugt ofan í hina fjölmörgu nöldrara þessa lands, sem virðast hafa fátt við að iðja annað en að þefa uppi allt það sem þeir geta látið fara innilega í taugarnar á sér – og þar er svo sannarlega af nógu að taka. Viðkomandi ráðherra sem slægi á létta strengi eða boðaði bjartsýni yrði sennilega sakaður um að tala af ábyrgðarleysi og léttúð og hafa engan skilning á því að mörgum líði afar illa „á fordæmalausum tímum,“ eins og það heitir víst.

Vinir okkar Írar virðast eiga áberandi skemmtilega ráðherra, allavega er utanríkisráðherrann Simon Coveney maður sem leyfir ímyndunaraflinu að taka af sér völdin, einmitt nokkuð sem við ættum öll að láta eftir okkur með reglulegu millibili. Hann gekk jólaandanum á vald og vann að því vikum saman að tryggja að jólasveinninn, sem við vitum öll að er á stöðugu flakki milli landa í desember, fengi sérstaka undanþágu og þyrfti ekki að fara í sóttkví við komuna til Írlands. „Hann fær að ferðast að vild um írska lofthelgi, og sömuleiðis um írsk heimili,“ sagði Simon í írska þinginu, en beindi því um leið til barna að vaka ekki eftir jólasveininum og ítrekaði að halda yrði tveggja metra fjarlægðarmörk frá honum. Írska ríkisstjórnin hefur þegar staðfest tilskipun um ferðafrelsi jólasveinsins. Að sögn fjölmiðla er jólasveinninn, sem þegar hefur boðað komu sína til Írlands, hæstánægður með þessa ákvörðun. Það eru írsk börn vafalítið einnig. Þau, eins og börn víða um heim, hafa þurft að ala með sér áhyggjur vegna heimsfaraldurs. Stundum er of mikið lagt á börn, sem er ósanngjarnt því þau eiga alltaf skilið það besta.

Þessi frétt um samkomulag írsku ríkisstjórnarinnar við jólasveininn er dæmi um það hvernig ganga má í lið með bjartsýninni og gera gott úr vondri stöðu. Það er líka notalegt að verða vitni að því að stjórnmálamenn sýni verulegt hugmyndaríki, eins og hinn írski Simon gerði þarna.

Írska ríkisstjórnin er ríkisstjórn sem er í lagi og reyndar meira en það, því hún er alveg til fyrirmyndar. Stuðningur hennar við jólasveininn er næg sönnun þess.