Það var átakanlegt að hlusta á þýska konu segja með tárin í augunum við fréttamann á hamfarasvæði í Þýskalandi: „Maður á ekki von á að fólk deyi í flóðum í Þýskalandi, það gerist í fátækum löndum. Ekki hér.“

„Ekki hér!“ höfum við Vesturlandabúar lengi sagt, enda talið okkur örugg í umhverfi sem við teljum nærri útilokað að muni snúast gegn okkur. Nú erum við enn einu sinni minnt á að öryggið er ekki svo mikið.

Á íhaldssamri en um leið afar hressilegri breskri sjónvarpsstöð var nýlega verið að ræða hamfaraflóðin á meginlandi Evrópu. Einn álitsgjafanna sá ástæðu til að taka fram að ekki væri sannað að flóðin stöfuðu af loftslagsbreytingum. Hann vildi þó greinilega ekki vera flokkaður sem algjör afneitunarsinni og bætti við að það gæti svo sem vel verið að loftslagsbreytingum af mannavöldum væri um að kenna.

Þetta var greinilega harðlínu íhaldsmaður, af þeirri tegund sem fyrir einhverjum árum hefði alfarið hafnað kenningu um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Nú virðist hann vera kominn nokkuð á veg með að endurskoða fyrri afstöðu. Hann er ekki einn um það. Mannkynið getur ekki lengur litið undan og látið eins og ekkert sé meðan náttúran gerir uppreisn.

Það líður vart sá dagur að ekki berist fréttir af veðurhamförum. Hitamet eru slegin og gróðureldar geisa með eignatjóni og mannfalli. Í Las Vegas var hitinn svo mikill að vatn sem sprautað var á skógarelda gufaði upp áður en það komst að þeim. Flóðin á meginlandi Evrópu hafa kostað nokkur hundruð manns lífið og eignatjón er gríðarlegt.

Áhrifafólk í þýskum stjórnmálum, þar á meðal Angela Merkel, segir að efla verði baráttuna gegn loftslagsáhrifum og þjóðarleiðtogar víða um heim taka undir. Hversu oft höfum við ekki heyrt svipuð orð sögð? Stundum er sagt að orð séu til alls fyrst, en ef litlar sem engar aðgerðir fylgja þeim þá breytist nákvæmlega ekki neitt.

Það getur vissulega verið gott að funda til að vekja athygli á loftslagsógninni og fá sem flesta til að ganga til liðs við málstaðinn, en lykilatriðið er að gripið sé til aðgerða. Ekki aðgerða sem felast í því að gera áætlun um hvað gera skuli eftir tíu ár, tuttugu ár eða þrjátíu ár. Við þurfum aðgerðir núna.

Af einhverjum ástæðum virðist það ekki hægt.Kannski erum við búin að koma okkur upp svo flóknum kerfum og lífsmynstri að ómögulegt þykir að stokka það upp. Hugsanlega myndi slík uppstokkun valda stórkompaníum miklum fjárhagsskaða – og það á víst að vera óbærileg tilhugsun.

Þvermóðska ríkja eins og Kína og Brasilíu setur síðan strik í reikninginn. Þess vegna eru einungis stigin hænuskref á hverju ári í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Allt of margir freistast síðan til að hugsa: „Ég hef það alveg ágætt, þetta loftslagsdæmi allt er mál seinni kynslóða. Ég nenni ekki breyta neinu hjá mér, það tekur því heldur ekki úr þessu. Þetta er ekki mitt mál.“

Þegar kemur að loftslagsbreytingum og aðgerðum gegn þeim þá verður sú hugsun æ áleitnari að mannkynið sé einfaldlega fallið á tíma.