Eitt af dóttur­fé­lögum borgarinnar er í vanda. Reyndar í rusli. Sorpa. Flokkun hefur verið minni í Reykja­vík en víða annars staðar á landinu. Urðun meiri en í Evrópu. Nú á að hætta að urða sorp um næstu ára­mót. Þess í stað er verið að byggja gas- og jarð­gerðar­stöðina Gaja. Hún virðist hafa gengið sjálf­ala.

Kostnaðurinn við byggingu hennar hefur farið fram úr öllum á­ætlunum og stefnir nú í 6 milljarða króna eða meira en tólf bragga. Að ó­breyttu verður reikningurinn sendur á heimilin í formi gjald­skrár­hækkana. Á þessu ári hefur Sorpa tekið tvö neyðar­lán upp á eitt þúsund og fimm hundruð milljónir króna en fyrir­tækið stendur mjög illa fjár­hags­lega.

Ekki nóg með að reikningurinn sé sendur skatt­greið­endum heldur hefur borgin veð­sett út­svars­tekjur Reykja­víkur­borgar svo SORPA geti tekið lán vegna fram­úr­keyrslunnar. Bara á þessu ári hefur Sorpa tekið tvö neyðar­lán.

Borgar­stjóri tók á­kvarðanir á form­legum eig­enda­vett­vangi

Fram­úr­keyrslan virðist hafa komið eig­endunum á ó­vart. Aðal­eig­andi er Reykja­víkur­borg, sem hefur staðið að því að farið var í verk­efnið. Borgar­stjóri sjálfur tók á­kvarðanir á form­legum eig­enda­vett­vangi Sorpu en hann fer með 60% allra hluta í fé­laginu. Þegar verk­smiðjan er til­búin á hún að fram­leiða metan­gas og moltu. Þrátt fyrir í­trekaðar beiðnir hefur engin rekstrar­á­ætlun fundist. Engir samningar eru um sölu á metangasinu og er markaður fyrir það lítill. Þetta þarf að leysa.

Moltan er kapítuli út af fyrir sig. Ekki er víst að hún gangi út og eru ekki öll kurl komin til grafar í því máli. Ef hún gengur ekki út verður hún upp­safnaður vandi. Tækni­lausnirnar í gas­gerðar­stöðinni eru um­deildar og því ó­víst að allt virki. Það á ein­fald­lega eftir að koma í ljós. Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið. Og sorpið ekki farið þó væntingar hafi verið um það. Sorpa­nos, sögðu þeir í aug­lýsingum Sorpu. Það þótti sniðugt. Núna er enginn að hlæja.