Winston Churchill var fyrsti forsætisráðherra Elísabetar II. Bretadrottningar. Hann fæddist 1874. Liz Truss var sá síðasti. Hún fæddist 1975.

Jafnvel hörðustu andstæðingar konungdæmisins hljóta að viðurkenna að Elísabet var einstök. Með henni er gengin síðasta óumdeilda manneskjan í konungsfjölskyldunni – límið sem hélt breska samveldinu saman, segja sumir.

Breska konungsfjölskyldan er óneitanlega hálfmisheppnuð. Óttalegur vandræðagangur á flestum fjölskyldumeðlimum. Upp úr standa hins vegar tvær konur, Elísabet II. og móðir hennar og nafna, sem lést 101 árs fyrir 20 árum.

Ætli hugur þegna Elísabetar til drottningar sinnar komi ekki nokkuð vel fram í bókinni BFG eftir Roald Dahl. Þegar bergrisinn frómi góði og Soffía standa frammi fyrir nær óleysanlegu vandamáli ákveða þau að leita á náðir Englandsdrottningar, sem bregst þeim ekki, enda traust sem klettur.

Mæðgurnar og nöfnurnar höfðu ríkt skopskyn, og veitti sennilega ekki af því í því hlutverki sem þær léku. Sagan segir að drottningarmóðirin, sem var með hverja mínútu dagsins skipulagða nokkra mánuði fram í tímann, hafi á hverjum morgni látið setja dýrindis kampavínsflösku í kæli, ef ske kynni að einhver kíkti í heimsókn. Í eftirmiðdaginn lét hún svo opna flöskuna þótt enginn hefði komið óvænt í heimsókn. Annars færi kampavínið bara til spillis, sagði hún, þar sem það þyldi bara kælingu einu sinni. Starfsfólkið í Clarence House naut góðs af.

Sumir telja persónulegar vinsældir Elísabetar II. hafa ráðið úrslitum þegar Skotar höfnuðu því að slíta sig úr ríkjasambandi við Englendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu 2014. Margir hafi ekki getað hugsað sér að hafna drottningu sinni með þeim hætti.

Óvíst er með breska samveldið og samstöðu Breta um konungdæmið nú þegar sameiningartáknið er horfið af sviðinu.