Ef fangelsin í landinu fá ekki aukið fjármagn er gert ráð fyrir því að á næsta ári verði fangelsinu að Sogni lokað og einni deild á Litla-Hrauni. Það þýðir að fangelsisplássum fækkar um 44.

Í minnisblaði dómsmálaráðherra til fjárlaganefndar Alþingis í vikunni, kom fram að til þess að geta rekið fangelsin á næsta ári þurfi 250 milljónir króna aukalega í fjárheimildir næsta árs og 150 milljónir króna aukalega í fjárheimildir þessa árs.

Þar er tekið fram að ef það fjármagn fáist þá verði hægt að tryggja „ásættanlega mönnun“ auk þess sem hægt verður að tryggja endurbætur á húsnæði og öryggiskerfi.

Eins og stendur bíða um þrjú hundruð einstaklingar þess að afplána og hafa margir þeirra beðið í fjölda ára. Árið 2021 fyrndust vegna þess refsingar 28 einstaklinga og árið þar á undan fyrndust refsingar 22 einstaklinga.

Fáist ekki aukin fjárheimild mun, á sama tíma og fangelsisplássum fækkar, þeim fjölga sem bíða afplánunar og einnig dómum sem fyrnast. Í kjölfarið á því mun draga verulega úr sérstökum varnaðar­áhrifum refsinga.

Þessi staða er því afar óheppileg. Ekki bara fyrir þann sem bíður afplánunar heldur einnig fyrir þolendur.

Inn í útreikning dómsmálaráðherra var nefnilega ekki tekinn sá kostnaður sem fylgir því fyrir samfélagið að fjöldi fólks, hundruð jafnvel, bíði þess að sjá gerendur sína afplána fyrir það sem þau gerðu þeim. Því að baki flestra glæpa eru þolendur. Einn eða fleiri jafnvel.

Á meðan gerendur bíða, bíða þolendur líka. Sem hafa að öllum líkindum beðið í þónokkurn tíma, miðað við að meðalmálsferðartími innan dómskerfisins geti verið nokkur ár, og þá á eftir að telja þann tíma sem lögregla tekur til rannsóknar mála. Það getur tekið á, líkamlega og andlega, og því fylgir sannarlega kostnaður fyrir samfélagið.

Þolendur treysta á það að þegar brotið sé á þeim þá verði einhverjum refsað, en einnig að gerendur þeirra fái tækifæri til betrunar og brjóti þannig ekki á fleirum.

Staðan í fangelsunum er þannig, fyrir utan að það eigi að fækka plássum, að Fangavarðafélag Íslands segir hvorki hægt að tryggja öryggi fanga né fangavarða og ekki hægt að tryggja að nokkur betrun fari fram.

Hvaða réttlæti er falið í því?