Ég hef ekki hugmynd um það hvað kann að vera svona merkilegt við það að vera karlmaður en veit samt hitt: Það getur verið meiriháttar mál að bora í vegg. Aðeins til vinstri? Ofar? Nei, aaaðeins neðar …Ég hef enn ekki unnið á lyftara eða skurðgröfu en ég var einu sinni í vinnu þar sem var náungi á lyftara sem gat með einni snaggaralegri hreyfingu opnað litla kók með stórri skóflu, án þess að lyftarinn stöðvaðist á meðan. Þetta fannst mér að hlyti að vera heilmikið mál.

Í sjálfu sér er auðvitað lítið mál að bera áburðarpoka, lofti maður þeim á annað borð, en samt er það svo að þegar ég fer á stjá á morgnana finnst mér sem allir þeir 50 kílóa pokar sem ég rogaðist með sem unglingur í uppskipun og útskipun – hokinn af reynsluleysi – hafi allir safnast saman í mjóbakið á mér. Það getur verið töluvert mál.

Og svo framvegis. Mér hefur alltaf fundist það vera soldið mál að vera karlmaður. Og að það sé jafnvel merkilegt þó að mér myndi vefjast tunga um tönn ef ég þyrfti að útskýra hvað sé eiginlega svona merkilegt við það að vera karlmaður – umfram það að vera maður, almennt talað.

Fagott í fimmund

Bóndadagurinn er í dag – karladagurinn – og maður skynjar einhverja kröfu í loftinu um að vera einhvern veginn. Til dæmis mjög loðinn. Og rífa í sig grámetið ropandi af bjór með rúnum á miðanum, og fitudropar í þykku skegginu sem maður þurrkar í lopapeysuna áður en maður hækkar í græjunum þar sem karlakór baular við undirleik þungarokkssveitar Táp og fjör og frískir menn. Og milli erinda hin eilífu þjóðlegu fagott í fimmund.

Og samt erum við fæstir svona, íslenskir karlmenn og nennum misvel að lifa okkur inn í þetta lopakyngervi. Við erum ekki allir fagott í fimmund. En félagsmótunin er sterk …

Og stundum er eins og hún ýti mest undir karlmannlega lesti: árásargirni, áhættusækni, ofmat á eigin dómgreind og styrk. Skammsýni, græðgi, skeytingarleysi, tilfinningakulda, valdsækni. Samfélagið allt sýpur seyðið af því þegar þessir eiginleikar eru um of ræktaðir upp í ungum karlmönnum og þeim sagt að til þess að ná árangri í lífinu verði þeir umfram allt að leggja rækt við þá. Það getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir fólk sem verður á vegi karla á slíkum villigötum, og á endanum líka þá sjálfa.

Það eru líka til karllegar dyggðir. Hógværð samfara styrk, blíða samfara sjálfsvirðingu, ábyrgðarkennd samfara dugnaði. Að bera ábyrgðarpoka, jújú – en ekki halda að maður eigi að gera það einn. Það er ekki bara mikilvægt að auka styrk sinn, líkamlegan og andlegan, heldur þarf líka að kunna á hann, vita hvenær maður á að beita honum, en umfram allt: hvenær maður á ekki að neyta aflsmunar, sem kallar líka á styrk. Í fornum ritum eru hetjur metnar jöfnum höndum eftir vöðvastyrk og visku. Ein flottasta setningin í Njálu er höfð eftir Gunnari á Hlíðarenda – þessum vanmetna manni sem tíðkast að úthúða seinni árin og kalla vitgrannan. Gunnar hefur starfað sem atvinnumaður í íþróttum erlendis um árabil – sem á þeim tíma fólst í hermennsku, að vera í víking, málaliði. Gunnar hefur verið í frægum liðum erlendis en kemur heim uppgefinn á þessu lífi og hefur séð hversu fánýtur sá frægðarljómi er, og spyr Kolskegg bróður sinn þegar alls konar smámenni eru að mana hann til átaka og draga hann inn á völlinn aftur: „hvort eg mun því óvaskari maður en aðrir menn sem mér þykir meira fyrir en öðrum mönnum að vega menn“.

Hvað er svona merkilegt …

Karlmenn eru montnir, klaufskir, stórir, nákvæmir, stórbeinóttir, kaldrifjaðir, glaðir, mjóir, tónvísir, ófríðir, fínlegir, drátthagir, illkvittnir, háværir, handlagnir, hlaunagleiðir, kynóðir, daprir, feitir, litlir, laglausir, hógværir, huglausir, fljótfærir, fyndnir, skegglausir, lágmæltir, ástsjúkir, varfærnir, loðnir, fagrir, góðir, feimnir, sköllóttir, beinaberir, kynkaldir, hugrakkir, klaufskir … Hvað er þá svona merkilegt við það að vera karlmaður? Ég veit það ekki: Allt þetta, en líka allt hitt. Skál fyrir því.

Og skál fyrir því að nú á tímum eru hugmyndir um kyn að verða meira fljótandi en áður sem hjálpar ólíkum einstaklingum að finna sig og njóta sín – rækta eiginleika sína, öðlast sjálfsvirðingu og viðurkenningu samfélagsins án þess að sitja föst í gömlum viðmiðum um skilyrði þess að geta talist karl – eða kona. Skál fyrir okkur!