Það hefur reynst jafn ávanabindandi sem kókaín og heróín. Svefntruflanir, svimi, örvænting, óþolinmæði, óróleiki, reiði, leiði, kvíði, þunglyndi, þreyta, martraðir, höfuðverkur, eirðarleysi og einbeitingarskortur eru einkenni sem lýst hafa verið eftir notkun þess. Það lætur þér kannski líða vel í skamma stund en á endanum ertu farinn að nota það til að deyfa vanlíðanina. Þú ert ágætur í rúma klukkustund og þá þarftu annan skammt. Nú fæst þetta efni nálægt skólalóðum í fjórfalt hærri styrkleika en hörðustu reykingamenn fá keypt í apótekum. Hver er tilgangurinn með frjálsri sölu nikótínpoka? Allavega ekki til að hætta að reykja, samkvæmt tollstjóra. Nikótín getur virkað spennandi eða töff en veldur eftirsjá þegar það hefur breytt taugatengingum í heilanum þannig að þér fer að líða illa án þess . Flestir sjá eftir að hafa byrjað og aðeins einum af hverjum þrjátíu tekst að losna í fyrstu tilraun úr þrældómi þess.

Nýleg úttekt Neytendastofu sýndi að sjoppur eru oft óhæfar til að bera þá ábyrgð sem nikótíni fylgir en alltof oft er búið að rjúfa innsigli rafsígarettuvökva og bæta við nikótíni í óþekktum skömmtum.

Nikótín er náttúrulegt eiturefni sem finnst í tóbaksplöntum. Það var notað sem skordýraeitur og hreinsiefni – því það er eitur. Nikótín hefur áhrif á hjarta og taugakerfi og eitt milligramm getur til dæmis valdið dauða hjá ungu barni. Því þurfa þeir sem umgangast efnið í miklu magni að vera í sérstökum búningum sem vernda þá.

Það er kominn tími til að horfa á staðreyndir og flokka nikótín sem sterkt eiturefni með ströngu eftirliti. Við eigum ekki að þurfa að horfa á samviskulausa sölumenn selja börnunum okkar eitur í vökva eða poka.