Mikil spenna ríkir um hversu lengi hraun mun renna í Geldingadölum. Gosinu var í fyrstu lýst sem „hálfgerðum ræfli“ en hefur síðan mótmælt þeirri staðhæfingu og tekið upp á ýmsum brögðum til þess að minna á mátt sinn. Engu að síður virðist sem líta megi á gosið sem enn eina íslensku gjaldeyrisskapandi náttúruauðlindina og fer vonandi fljótt að laða til sín bólusetta túrista með sín troðnu dollaraveski og rauðglóandi segulrendur á kreditkortunum. En hingað til höfum við, íbúar þessa lands af öllum mögulegum uppruna, fengið að njóta þess að eiga það út af fyrir okkur.

Sjálfvirkur teljari við gosstöðvarnar hefur talið ríflega 90 þúsund ferðir þangað. Í þeim hópi eru eflaust margir sem höfðu ekki áður séð fyrir sér að þeir væru týpurnar sem skelltu sér galvaskar á vettvang náttúruhamfara bara til þess að njóta sjónarspilsins. Margir hafa svo farið aftur og aftur og hafa gönguleiðirnar suma dagana orðið eins og edrú útihátíð—fólk mætist skælbrosandi og létt í lund, allir ánægðir með sig að hafa farið af stað, kannski þurft að fara út fyrir gamla þægindarammann og skipta út ögn af ótta fyrir ógleymanlega lífsreynslu. Margar kynslóðir mætast og eiga saman góða og heilbrigða upplifun.

Utan skipulagsvaldsins

Þetta virðist ósköp eðlilegt, en þó er öruggt að ef framtakssamt athafnafólk í Grindavík hefði sótt um leyfi hjá skipulagsyfirvöldum til að búa til eldgos og leyfa hundrað þúsund manns að ganga þangað mestmegnis án eftirlits og dvelja þar eftir eigin höfði, hafa engin reipi til að tryggja fjarlægð frá glóandi gosinu, þá hefði því verið hafnað með yfirgnæfandi þjósti. Hugmyndin um að hleypa fólki á öllum aldri í seilingarfjarlægð við mörgþúsund gráðu heitt bráðið berg og margvíslegar eitraðar gastegundir hefði þótt algjörlega fráleit. En svo virðist að þegar á reynir þá sé fólk ekki eins ofdrekraðir bómullarbossar og stundum er af látið. Langflestir fara mjög varlega og sýna aðstæðunum tilhlýðilega virðingu. Raunveruleg ævintýri krefjast varkárni, yfirvegunar og hugrekkis. Kannski hefði eldgosið ekki getað komið á betri tíma. Ótti og uppburðarleysi hefur verið býsna ríkjandi í samfélaginu síðan heimsfaraldurinn hófst—og kannski mun lengur. Þeirri hugmynd að veröldin sé fyrst og fremst hættuleg, er haldið að okkur úr öllum áttum. Fjölmiðlar um heim allan þrífast á því að segja frá ólíklegum atburðum sem geta vakið ugg, kvíða og ótta. Minna vægi fær umfjöllun um hversu fagur, skemmtilegur og ævinýralegur heimurinn getur verið og hversu margs má hlakka til og njóta.

Faraldurinn kom inn í umhverfi þar sem fólk á Vesturlöndum var farið að ganga út frá því að öryggi sé ætíð kyrfilega tryggt. Til eru mörg sorgleg dæmi um það í Afríku að vestrænir ferðamenn hafi anað út í dauðann í þeirri trú að ef dýrin væru raunverulega hættuleg þá væru þau í búri. Sjálfur hékk pistlahöfundur hálfur út úr fólksbíl til að ná ljósmyndum af ljónum í Suður-Afríku fyrir nokkrum árum, en komst að því síðar sama dag á internetinu að tveir aðrir fífldjarfir ferðamenn hefðu endað í meltingarfærum villidýranna skömmu áður eftir álíka gáfulegt athæfi. En stundum þarf að taka smá áhættu ef maður vill upplifa eitthvað fallegt.

Eitthvað slæmt eða gott

Óttinn við að „eitthvað slæmt“ geti komið fyrir virðist vera mjög ríkjandi á Vesturlöndum, ekki síst hjá ungu fólki. Mest af öllu er það auðvitað óttinn við hinn óhjákvæmilega dauða. Það er jafnvel flokkað sem áfall þegar háaldrað fólk fær að sigla friðsamlega inn í eilífðina.

Þó eru það engin nýmæli hver gangur lífsins er. Menn hafa löngum vitað að það er einmitt vegna þess hversu fagurt kraftaverk lífið sjálft er að við berum í brjósti beyg gagnvart dauðanum. Stærsta syndin gagnvart lífinu er því ekki sú að hafa ekki nógu miklar áhyggjur af dauðanum, heldur einmitt að vera svo upptekin af honum að þora ekki að njóta lífsins—að vera svo heltekinn af hræðslu við endalokin að maður gleymi að lifa. Og vera svo hræddur við að misstíga sig í lífinu að maður þori aldrei að spretta úr spori.

Krafan um algjört öryggi í lífinu getur aldrei endað með öðru en vonbrigðum. Og það sem meira er—væntingar í þá veru leiða án nokkurs vafa til bæði líkamlegrar og andlegrar vanlíðunar—og gera lífið bara leiðinlegt til lengdar. Að njóta lífsins með hæfilegri ævintýraþrá og hugrekki, til dæmis með því að fara á gosstöðvar og upplifa nýja hluti, felur alltaf í sér einhverja áhættu. En hún getur svo sannarlega verið þess virði. Það er nefnilega aldrei að vita nema „eitthvað gott“ geti komið fyrir. Við lifum jú bara einu sinni; að minnsta kosti bara einu sinni í einu.