Hinn 6. júlí árið 1988 ók John Stephens tankbíl sínum að Lowermoor-vatnshreinsistöðinni á Suðvestur-Englandi. Stöðin var mannlaus en John hafði verið fenginn lykill. John flutti álsúlfat sem notað er til að fella út óhreinindi úr vatni. Hann opnaði hliðið og sturtaði öllum farmi sínum ofan í það sem hann taldi geymslutank.

Ekki leið á löngu uns símalínur Vatnsveitu Suðvestur-Englands loguðu. Íbúar bæjarins Camelford sögðu vatnið sem rann úr krönum þeirra vera svart á litinn; það loddi við húð og hár eins og lím; mjólkin í tebollum hljóp í kekki. Fólk kvartaði undan magaverkjum, útbrotum, sárum í munni og minnisglöpum.

Þegar starfsmenn vatnsveitunnar könnuðu málið kom í ljós að John hafði í ógáti hellt tuttugu tonnum af álsúlfati út í drykkjarvatn 20.000 manna bæjar. En bæjarbúa biðu frekari hörmungar. Í sextán daga héldu embættismenn vatnsveitunnar eitrun vatnsbólsins leyndri. John var skipað að þegja um óhappið. Starfsmönnum var sagt að fullvissa neytendur um að vatnið væri skaðlaust og ráðleggja þeim að blanda appelsínusafa út í drykkjarvatnið til að breiða yfir óbragðið.

Hvað fékk yfirvöld til að reyna að hylma yfir alvarlegt mengunarslys með þeim afleiðingum að í sextán daga drukku 20.000 íbúar Camelford eitrað vatn?

Lowermoor og Lindarhvoll

Aðalmeðferð í Lindarhvolsmálinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku.

Lindarhvoll er félag sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra stofnaði árið 2016 og átti að annast og selja eignir sem féllu ríkinu í skaut eftir samninga við slitabú föllnu bankanna, að undanskildum hlutabréfum í Íslandsbanka sem Bankasýslu ríkisins var falið að selja – eins og frægt er orðið.

Í fjölmiðlum hefur víða verið fjallað um þá „leynd“ sem ríkir „um hvernig Lindarhvoll hefur staðið að málum við sölu á eignum ríkisins“. Hefur því verið haldið fram að „eigur hafi verið seldar á undirverði og til vildarvina“. Þingkona sagði „trúnaðarvin“ fjármálaráðherra hafa verið fenginn til að stýra félaginu.

Fyrrnefnt dómsmál hefur ekki orðið til að slá á sögusagnir. Í héraðsdómi sagði sérfræðingur hjá Kviku banka söluferli tiltekinnar eignar í umsjá Lindarhvols „sjoppulegt“ og gerólíkt því sem tíðkaðist. Var fullyrt að ríkið hefði orðið af hálfum milljarði króna þegar eignin var seld á helmingi lægra verði en verðmat kvað á um.

Í kjölfar mengunarslyssins í Camelford glímdu íbúar við margs konar heilsubrest. Árið 2004 lést 59 ára kona, sem búið hafði í bænum þegar slysið varð, úr taugasjúkdómi. Við krufningu fannst í heila hennar óheyrilegt magn af áli. Dánardómstjóri var harðorður í úrskurði sínum. Hann sagði Vatnsveitu Suðvestur-Englands hafa „lagt líf fólks að veði“ er hún hylmdi yfir slysið. Hann var í litlum vafa um ástæðu launungarinnar. Þegar slysið átti sér stað var hafinn undirbúningur að einkavæðingu vatnsveitna Englands. Stjórnendur óttuðust að slysið kynni að stofna einkavæðingunni í hættu.

Árið 2018 skilaði Sigurður Þórðarson, þá settur ríkisendurskoðandi, greinargerð um starfsemi Lindarhvols til Alþingis. Fátt er vitað um greinargerðina því stjórn Lindarhvols og fjármálaráðuneytið róa að því öllum árum að halda henni leyndri. Í viðtali við Vísi í vikunni sagði Sigurður skuggalegt að skýrsla hans væri ekki enn opinber.

Yfir hvað er verið að hylma? Og hver er ástæða launungarinnar? Kann að vera að hún sé sú sama og í Camelford? Ógnar sannleikurinn framtíðar einkavæðingaráformum ríkisstjórnar sem þegar er rúin trausti þegar kemur að sölu á ríkiseignum? Appelsínudjús dugar skammt til að deyfa bragðið af þeim fúla óminnisdrykk sem ráðamenn byrla okkur.