Ég á minningu þar sem ég sit á teppinu fyrir framan sjónvarpið heima og horfi stjarfur á Höllu Margréti syngja lokalínurnar „einu sinni, einu sinni enn“, þannig að tíminn stóð í stað. Tók engan pípuhatt og fór ekki fet, heldur starði ástfanginn, eins og ég, á þetta undur á sviðinu. Ég jafnaði mig síðan á ástinni en lagið heillar mig í hvert sinn sem ég heyri það.

Það er þessi raunfallega og ljóðræna lýsing á stund sem tekur enda, sögðum orðum og ósögðum, nótt sem færir þögninni loksins frið. Í morgunsárinu yrkja fuglarnir síðan nýjum degi ljóð.

Í dag er kosið til bæjar- og sveitarstjórna í landinu. Ég var fenginn til að stýra sameiginlegum framboðsfundi í vikunni sem leið. Það eru þrír flokkar í sveitarfélaginu sem bjóða fram og góðleg spenna í samfélaginu. Fundurinn fór vel fram, líflegur, ástríðufullur – áhugasamur um nærsamfélag og nærþjónustu. Kjósendur í sókn og frambjóðendur vaskir í verkefnið. Allt eins og það á að vera.

Þar sem ég sat og hlýddi á eina fyrirspurnina og svörin frá framboðunum þremur mundi ég allt í einu af hverju mér finnst sjálfum sveitarstjórnarmál vera meira heillandi en landsmál. Nú hef ég tekið sæti bæði á Alþingi og setið í sveitarstjórn, auk þess að stýra sveitarfélagi. Það er þessi nánd við kjósandann og ábyrgðin sem þú getur ekki vikið þér undan. Það er orðræðan sem er enn þá einlæg og blátt áfram – kannski örlítið hrá, ólíkt þeirri tilfinningalausu orðabestun sem oft einkennir lands­pólitík.

Það er kosið í dag um hækkandi sól, í söng og sveit – einu sinni, einu sinni enn.