Dagurinn verður með nokkuð öðru sniði en fyrirhugað var. Í dag hefðu tugir þúsunda manna þyrpst út á götur og tekið þátt í að fagna fjölbreytileikanum. Það verður ekki. Vegur réttindabaráttu hinsegin fólks hér á landi er þyrnum stráður, ekki síður en annars staðar. Um það vitnar til dæmis heimildarþáttaröðin Svona fólk, sem verið hefur til endursýningar í Ríkisútvarpinu í líðandi viku. Svo er almennri skynsemi flestra þeirra sem þetta land byggja fyrir að þakka, að baráttan er þó lengra komin hér en víða annars staðar. Þó er sú leið ekki á enda gengin.

Það er ekki um að villast að hugrekki þeirra sem fyrstir stigu fram og sættu sig ekki við að þurfa að vera í felum, lagði grundvöll þess árangurs sem náðst hefur í málefnum hinsegin fólks hér á landi. Þar á Gleðigangan sannarlega sinn þátt. Þeir sem vitni urðu að fyrstu göngunum muna ljóslega að þar var brotið blað. Síðar var gangan einn af helstu viðburðum sumarsins og þúsundir og jafnvel tugir þúsunda streymdu í bæinn til að fagna fjölbreytileikanum.

Í þáttunum sem vísað var til eru spilaðar upptökur úr innhringiþáttum sem voru vinsælt útvarpsefni á árum áður. Mann rekur í rogastans við að heyra þann munnsöfnuð sem þar flaut fram og ber ófagurt vitni um forpokuð og afdönkuð viðhorf þeirra sem þar töluðu. Nú er öldin önnur og þessar raddir að mestu þagnaðar. Eða hvað?

Fólk er fólki verst. Þegar vel er að gáð er varla nema eitt sem fólk þarf að óttast hér í heimi – annað fólk. Viðjar fordóma, fáfræði og mannlegrar grimmdar hafa verið fjötrar manna frá öndverðu. Nú hafa þessar raddir færst inn á rafrænt svið þar sem engin stjórn virðist vera á því hvað fært er fram. Internetið, sem auðveldað hefur ýmislegt, hefur auðveldað greið orðaskipti og þau ekki öll ígrunduð, ekki síst á samfélagsmiðlum. Það er varla ástæða til að amast við því. Meginmálið er að þeir sem orðin lesa átti sig á að ekki er þar allt satt og rétt sem fært er fram og ýmsu þarf að taka með fyrirvara og trúa ekki öllu sem nýju neti. Að öðrum kosti er hætta á að fræ fordóma, fáfræði og mannlegrar grimmdar finni sér frjóan svörð á ný.

Þó að við höfum látið af því að kljúfa fólk í herðar niður, eins og lesa má víða um í menningararfinum, eru mannvíg daglegt brauð á samfélagsmiðlum og í umræðu manna.

Við ættum líka að láta af því.

Við ættum að láta okkur að kenningu verða hvernig hópur hinsegin fólks var hrakinn og smánaður í opinberri umræðu og samskiptum manna á milli. Okkar ráðning ætti að vera að sjá hvernig Fönix hinsegin fólks hefur risið upp úr öskunni og breitt út vængi sína með gleðina að vopni.

Þegar allt kemur til alls ættu allir menn að hafa jafnan rétt til að haga lífi sínu að vild og elska þá sem þeir vilja.

Frelsi manna til þess ætti að vera óheft að því marki sem það takmarkar ekki frelsi annarra.