Einn daginn vakna ég löngu á undan vekjaraklukkunni, en ekki með andköfum eða í köldum svita, þann dag ætla ég að horfa út um gluggann í stofunni minni. Horfa út á haf, eða þá flís hafsins sem þétt byggð skyggir ekki á.

Ég ætla ekki að vera þreyttur. Ég ætla ekki að vera sakbitinn yfir því að hagnýta þennan tíma ekki. Ég ætla ekki að flýta mér neitt. Ég ætla ekki að kalla þetta núvitund.Það verður vont veður og ég ætla að hella upp á kaffi. Ég ætla að drekka kaffið mitt standandi við stofugluggann. Horfa á hafið, hlusta á veðrið og bíða eftir vekjaraklukkunni.

Þegar hún hringir kemur Hófí, kærastan mín, fram og spyr hvort allt sé í lagi. Hvort ég hafi verið andvaka, eða dreymt illa, eða hvort eitthvað hafi komið upp á. Það er allt í lagi, ég svaf vel og mig dreymdi ekkert, segi ég henni og fer inn í eldhús og hræri graut, helli upp á meira kaffi. Svo horfum við saman út um gluggann, hlustum á veðrið og bíðum eftir að stigagangurinn vakni. Þegar hann vaknar fer Hófí í vinnuna og spyr mig hvað liggi fyrir hjá mér.

Ég segi henni að ég þurfi að undirbúa hitt og þetta, senda tölvupósta og heyra í hinum og þessum, allt mjög loðið. Þegar við kveðjumst óskar hún mér góðs gengis og ég henni sömuleiðis. Þegar ég er viss um að hún hafi náð strætó leggst ég aftur upp í rúm og breiði yfir mig, undirbý ekkert, sendi engan tölvupóst, heyri í engum og enginn heyrir í mér. Þessi dagur telst ekki með, ég stroka hann út af dagatalinu.