Þegar við nokkrir félagar úr Samfylkingunni hittum Håkan Juholt, fyrrverandi leiðtoga sænskra jafnaðarmanna og sendiherra, fyrir hartnær ári síðan til að ræða við hann um jafnaðarstefnu og jafnaðarstarf, bað hann okkur um að ímynda okkur að Samfylkingin hyrfi af yfirborði jarðar. Síðan skyldum við spyrja okkur sjálf að því hvort það breytti einhverju fyrir Ísland. Ef við kæmumst að því að það breytti engu ættum við að íhuga að finna okkur annað áhugamál.

Þessa spurningu ættu jafnaðarmenn alltaf að hafa í huga. Hvers vegna þurfum við jafnaðarmannaflokk? Hvers vegna þarf fólkið á Íslandi, eða mikill meiri hluti þess, sósíaldemókratíska hreyfingu? Það er sama spurningin og: Hvers vegna þurfum við verkalýðshreyfingu og samtök launafólks?

Við þurfum jafnaðarmannaflokk vegna þess að launafólk þarf á hreyfingunni að halda.

Við þurfum jafnaðarmannaflokk vegna þess að það þarf að bæta kjör venjulegs vinnandi fjölskyldufólks.

Við þurfum jafnaðarmannaflokk vegna þess að núverandi ríkisstjórn skilur ekki, eða vill ekki skilja, þarfir og hagsmuni fjölskyldna, atvinnulausra, innflytjenda, ungs fólks, öryrkja og ellilífeyrisþega.

Håkan Juholt sagði annað: Hann sagði að við þyrftum að gera það sem skiptir venjulegt fólk máli í þess daglega lífi. Og hann bætti við, sem dæmi: Þið eigið að setja upp sumarbúðir fyrir börn sem eru heima hjá sér allt sumarfríið vegna þess að foreldrar þeirra hafa ekki efni á neinum ferðalögum.

Ég segi við ykkur, íslenskt jafnaðarfólk: Hvers vegna ekki? Hvers vegna vinnum við ekki þörf samfélagsverkefni, skiptum máli í daglegu lífi venjulegs fólks?

Á ekki Kvennahreyfing Samfylkingarinnar að bjóða erlendum konum í kaffi og spjall til dæmis mánaðarlega, konum sem eru einangraðar og kynnast ekki íslenskum konum eða eiga enga íslenska vini?

Eigum við ekki að hringja reglulega í félaga okkar sem komnir eru á efri ár, sem alveg eins er líklegt að fái fáar hringingar, eru ekkjur eða ekklar, búa ein, eru einmana eða börnin hringja sjaldan? Hvers vegna ekki?

Ég nefndi hringingar. Við höfum verið að hringja undanfarnar vikur í félaga okkar í flokknum, spjalla um komandi alþingiskosningar og fá fólk í sjálfboðaliðavinnu. Þar höfum við einmitt fundið fyrir þörf eldra fólks fyrir samtöl, gamals jafnaðarfólks sem man tímana tvenna úr verkalýðsbaráttunni og hefur ánægju af samtali við yngra flokksfólk. Ein gömul kona á Suðurnesjum sem Ragna forseti UJ hringdi í síðastliðinn laugardag sagði við hana að sér fyndist hún verða ung í annað sinn bara við það að ung kona úr flokknum hringdi í sig til að tala um pólitík og aðstæður fólks í sinni heimabyggð.

Eitt af mínum símtölum hefur ekki vikið úr huga mér. Ég talaði við einstæða, fjögurra barna móður sem hafði misst vinnuna, á leið að selja íbúðina vegna þess að hún réði ekki við afborganirnar, var í harki með íhlaupavinnu og fannst niðurlægjandi að skrá sig á atvinnuleysisbætur, þrátt fyrir að hafa greitt skatta og skyldur árum og áratugum saman.

Við eigum að haga komandi kosningabaráttu þannig að þessi einstæða móðir segi við sjálfa sig: Það borgar sig fyrir mig að kjósa Samfylkinguna. Vegna þess að hún trúir því í hjarta sér að við munum ekki unna okkur hvíldar fyrr en aðstæður hennar, og tugþúsunda annarra, hafa batnað. Vegna þess að við meinum það sem við segjum og gerum það sem við meinum. Vegna þess að fólk treystir okkur.

Gera það sem skiptir venjulegt fólk máli í þess daglega lífi.

Tala um það sem skiptir venjulegt fólk máli í þess daglega lífi.

Berjast fyrir breytingum sem skipta venjulegt fólk máli í þess daglega lífi.

Og við þurfum einlægt að spyrja okkur: Skiptum við máli fyrir venjulegt fólk í þess daglega lífi?

Aðal pólitískur ráðgjafi formanns breska Verkamannaflokksins, Claire Ainsley, skrifaði bók sem kom út árið 2018 og heitir The New Working Class, How to win hearts, minds and votes, eða Nýja verkalýðsstéttin, hvernig á að vinna hjörtu, hug og atkvæði. Fyrir utan áhugaverðar pælingar um þau gildi sem við eigum að tala um, fjölskyldu, sanngirni, vinnusemi og heiðarleika, þá segir hún á blaðsíðu 153 að stjórnmálaflokkar geri sig oft seka um að tala við sjálfa sig, gerandi ráð fyrir að þeirra hugmyndaheimur skipti kjósendur meira máli en hann gerir í raun og veru. Kjósendur hafa ekki áhuga á stjórnmálaflokkum, þeir hafa áhuga á sér, sínum aðstæðum og kjörum.

Íslenskt jafnaðarfólk: Við skulum hafa þetta í huga á þeim mánuðum sem fram undan eru, fram að kosningunum í september. Við skulum haga starfi okkar og athöfnum, gjörðum og skilaboðum þannig að launafólk sjái hag sínum best borgið með því að greiða jafnaðarmönnum atkvæði sitt. Við skulum sýna það í verki að við erum verð atkvæðanna. Við skulum berjast með orði og athöfnum, í bæjum og sveitum, á fundum og samkomum, á götum og í verslunarkjörnum, heima hjá okkur og á Austurvöllum Íslands.

Við skulum aldrei gefast upp!