Reykjavík á fáa málsvara þessa dagana. Kjördæmakerfið er ekki bara ósanngjarnt vegna þess ójöfnuðar sem það veldur milli kjósenda, heldur einnig vegna þess að þingmenn Reykjavíkur virðast ekki taka þátt í leiknum. Þingmenn Reykjavíkur virðast líta á sig sem þingmenn alls landsins, en þingmenn landsbyggðarinnar einblína á kjördæmi sín.

Samfélagsleg áhrif heimsfaraldursins hafa komið niður á Reykjavík. Margfalt fleiri ferðamenn heimsækja miðborgina en nokkurn annan stað á Íslandi og verslun og þjónusta á svæðinu er því í molum. Eigendum ferðaþjónustufyrirtækja um allt land er vorkunn, en sumarið var huggun harmi gegn – alls staðar nema í borginni. Stjórnvöld hafa ráðist í ýmsar aðgerðir til að milda höggið fyrir atvinnulíf um allt land – líka fyrir Reykjavík. En það hefur að mörgu leyti mistekist.

Menningarverðmætin í höfuðborginni fá að mæta afgangi í allri umræðu. Menningarlíf í borginni hefur legið niðri að mestu síðan í vor. Miðborgin er einmanaleg. Æ fleiri verslunar- og veitingarými standa auð. Borgarstjórinn á erfitt með að klæðast ekki læknasloppnum í faraldrinum, í stað þess að berjast fyrir íbúana. Borgin hefur orðið út undan.

Á meðan Reykjavík hefur koðnað niður í faraldrinum hafa þingmenn landsbyggðarinnar hvergi slegið slöku við í að minna á hagsmuni sinna kjördæma. Það vantar þyrlupall úti í Eyjum, björgunarpakka við atvinnuleysi á Suðurnesjum og að efla skógrækt um landið. Það þarf að létta á sóttvörnum fyrir norðan en loka á Reykjavík. Það þarf að breyta Akureyri í borg.

Það kann að hljóma léttvægt á sama tíma og stjórnvöld standa frammi fyrir krísunni. En þau okkar sem eru lokuð inni með skertan rétt til athafna dreymir mörg um bjartari tíð og iðandi borgarlíf á ný.

Frá því þingið var sett í haust hefur einn þingmaður borgarinnar lýst áhyggjum af lífsmarki höfuðborgarinnar. „Að ganga um miðborg Reykjavíkur, til dæmis að kvöldi til, er annað en það var. Ljósin á veitingastöðunum eru slökkt, stólar standa uppi á borðum og rými til að skapa tekjur er að hverfa,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á fyrstu viku haustþingsins.

Hún kvaddi sér hljóðs til að ræða áfengisgjald, þá tekjulind ríkissjóðs sem fæstir þingmenn treysta sér til að andmæla, en verður æ ósanngjarnari. Gjaldið hækkar þegar herðir að, en er aldrei lækkað. Skattar á áfengi og tóbak koma ekki aðeins verst niður á tekjulægstu hópunum, heldur hitta mikilvæg fyrirtæki í miðborg Reykjavíkur gríðarlega illa fyrir á versta hugsanlega tíma.

Þorbjörg er ekki eini þingmaður Reykjavíkur. Íbúar Reykjavíkur eiga tuttugu og tvo þingmenn og höfuðborgin á betra skilið en að vera hundsuð af þingmönnum sínum, sem eru rúmur þriðjungur alls þingheims. Hvað eru þeir allir að brasa? Eru þeir að hjálpa Loga Einarssyni að byggja borg fyrir norðan?