Einhverfa er afar fjölbreytileg og birtist í óendanlega mörgum myndum. Öll eigum við það þó sameiginlegt að taugakerfi okkar býr yfir sérkennum sem eru auðþekkjanleg ef að er gáð. Lengst af var þessum sérkennum aðallega lýst utanfrá, af sérfræðingum sem horfðu á hegðun, samskipti og framkomu einhverfs fólks, en undanfarið hafa raddir einhverfra orðið meira áberandi í umræðunni. Það er dýrmæt þróun, þar sem innsýn í veruleika einhverfra eykst jafnt og þétt og þar með hæfni samfélagsins til að koma til móts við ólíkar þarfir.

Skynjun og samskipti

Mörg einkenni einhverfu byggja á óvenjulegri skynjun, hvort sem um er að ræða snertingu, lykt eða bragð, sjón, heyrn, stöðuskyn eða aðra innri skynjun. Það sem birtist sem matvendni getur þannig verið viðkvæmni gagnvart bragði eða áferð matar. Sérviska í fatavali getur tengst viðkvæmni fyrir ákveðnum efnum, saumum eða miðum. Vanlíðan í fjölmenni getur orsakast af næmri heyrn.

Einhverft fólk er gjarnan bókstaflegt og beinskeytt í samskiptum. Segir það sem það meinar og býst við að aðrir geri það líka. Tvíræðni getur þannig valdið misskilningi, sem og þegar talað er undir rós. Óbein fyrirmæli skila sér oft illa og óskýr hlutverk valda mikilli streitu.

Aðgengi á vinnumarkaði

Einhverfir búa yfir fjölbreytilegri þekkingu, reynslu og færni og hafa mörg hver ágætis starfsorku. Þó er fjöldi einhverfra sem ekki nær fótfestu á vinnumarkaði allt of mikill. Það er mikill missir bæði fyrir samfélagið og einstaklingana sjálfa.

Áherslan á það hvernig störf þurfa að vera til að einhverft fólk geti sinnt þeim horfir oft of mikið á eðli starfsins frekar en umhverfi þess. Störf fyrir einhverfa þurfa til dæmis ekki að byggja á tölvutækni, en þau þurfa að vera aðgengileg.

Aðgengileikinn þarf að taka tillit til þarfa hvers og eins og hvernig hægt er að samræma þær vinnuumhverfinu og vinnustaðnum. Þar er ekki síst mikilvægt að huga að skynjuninni, svo sem hljóðvist, næði og birtustjórnun. Opin rými reynast einhverfum oft afar erfið vegna sífellds áreitis á skynjun sem tekur til sín mikla orku. Slíkt getur meðal annars leitt til einbeitingarskorts og erfiðleika í samskiptum. Góð samskipti eru lykilatriði og þau þurfa að byggja á gagnkvæmum skilningi.

Atvinnuviðtal er eitt af því sem reynist einhverfu fólki oft erfitt vegna ólíkrar nálgunar í samskiptum, þó svo þekking og færni á viðkomandi starfssviði sé til staðar og jafnvel framúrskarandi. Ætli vinnumarkaðurinn sér að vera aðgengilegur öllum þarf ekki hvað síst að endurskoða nálgun í ráðningum þannig að allir hafi jöfn tækifæri til að komast yfir þennan fyrsta þröskuld.

Nokkur góð ráð

Ráðgjöf til vinnustaða um það hvernig koma má til móts við einhverft starfsfólk er aðgengileg hjá samtökum einhverfra víða um heim. Einhverfusamtökin eru boðin og búin að liðsinna með fræðslu og ráðgjöf.

Meðal þess sem huga þarf að eru þættir sem allir góðir vinnustaðir ættu að leggja metnað sinn í, hvort sem horft er til einhverfra eða annars starfsfólks almennt. Þar má nefna skýr hlutverk og fyrirmæli, reglubundin samskipti og góða þjálfun og eftirfylgni í starfi. Gott skipulag á vinnustað og vel undirbúnar breytingar eru einnig mikilvæg atriði sem gagnast öllum.

Sértæk úrræði fyrir einhverft starfsfólk eru líka mikilvæg, meðal annars að umhverfið sé „skynvinsamlegt“, þ.e. laust við óþarfa áreiti og jafnvel að til staðar sé hvíldarsvæði til að hlaða batteríin þegar mikið er um að vera.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að huga að vitundarvakningu á vinnustöðum um einhverfu og ólíkar þarfir starfsfólks almennt. Skilningur er forsenda velgengni og vellíðunar.

Höfundur er verkefnastjóri fræðslumála hjá Einhverfusamtökunum.