Nú liggur fyrir sú sorglega staðreynd að aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum mun kosta samfélagið heila 16 milljarða, sem gerir um 45.000 krónur á hvern Íslending, sé miðað við markaðsverð innan ETS kerfisins. Það fé gæti sannarlega nýst okkur betur til uppbyggilegra verkefna í íslensku samfélagi. Þetta þurfti ekki að enda svona því margoft hefur verið bent á hvað þyrfti að gera. Ég leyfi mér að minna á vel rökstuddar tillögur Landverndar frá árinu 2005.

Stjórnvöld völdu að hlusta ekki á þær raddir, eða treystu sér ekki til að berjast við þá sem sjá hag í óbreyttu ástandi. „Staðan er ekki góð,“ segir umhverfisráðherra í Fréttablaðinu 10. nóvember sl., en bætir við að hún sé ekki á ábyrgð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. „Við erum að gera betur,“ fullyrðir hann.

Fáum við fleiri reikninga?

Ný aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er vissulega betri en þær fyrri. En það er samt ekki nóg. Ef ekki verður bót á, er hætt við að sett markmið náist ekki og staðan árið 2030 verði einnig afleit.

Athugun Landverndar á loftslagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar, sem kynntar voru fyrir fáeinum vikum, bendir til þess að þær skorti bæði nauðsynlegt afl og hvata til úrbóta, auk þess sem þær ná ekki til allra geira samfélagsins. Þegar við bætist veik stjórnsýsla í loftslagsmálum og of bjartsýnar spár um mikinn samdrátt á grundvelli óbreytts ástands, má telja ólíklegt að markmið Íslands um milljón tonna samdrátt CO2 ígilda náist fyrir 2030. Þess vegna eru töluverðar líkur á að við fáum næsta Kyotoreikning eftir tíu ár.

Um þessar mundir eru þjóðir Evrópu að reyna að koma sér saman um enn framsæknari markmið um samdrátt en Kyoto-samningurinn gerir ráð fyrir, til að standa undir væntingum sem bundnar eru við Parísarsamkomulagið. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ekki ráð fyrir þessum framsæknari markmiðum.

Látum þá sem menga greiða reikninginn

Nú er lag að breyta rétt. Skilvirkast væri að hækka og breikka gjaldið fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Reynslan sýnir að sú aðferð er beittasta verkfærið til að draga úr losun. Það er líka leiðin til þess að Ísland nái settum markmiðum á næstu tíu árum. Og sem bónus ættu tekjur af því gjaldi að nægja vel til að greiða Kyotoskuldina. Þetta er mengunarbótareglan í framkvæmd. Er það ekki sanngjarnt að þeir sem menga greiði Kyotoreikninginn?

Höfundur er formaður landverndar.