Heita má að stjórn­mála­maðurinn Birgir Þórarins­son hafi logið sig inn á lög­gjafar­sam­kundu þjóðarinnar í ný­af­stöðnum al­þingis­kosningum.

Ef marka má hans eigin orð virðist sem hann hafi, nokkru fyrir kjör­dag, verið búinn að gera það upp við sig að honum væri ekki lengur vært innan Mið­flokksins, af á­stæðum sem rekja má til margra ára gamals fyllerís í flokknum og upp­gjörs við þau ó­sköp – og þar af leiðandi myndi hann láta slag standa og óska eftir inn­göngu í þing­flokk Sjálf­stæðis­flokksins strax að kjöri loknu, svo fremi Mið­flokkurinn færði honum þing­sæti.

Ó­svífnin verður ekki ein­beittari.

Hann komst á þing í krafti sjálf­boða­liða­starfs og sam­stilltrar bar­áttu eld­heitra Mið­flokks­manna í Suður­kjör­dæmi, allra þá­verandi sam­herja sinna sem gátu engan veginn gert sér í hugar­lund að fram­bjóðandi þeirra og odd­viti væri í að­draganda kosninganna kominn í annan flokk í huganum.

Mis­notkun er gildis­hlaðið orð, en á þó engu að síður við í þessu til­felli, enda bar fram­bjóðandinn kápuna á báðum öxlum – og lék ekki að­eins tveimur skjöldum, fyrir kosningarnar, í þeim sjálfum og strax að þeim af­loknum, heldur lék hann sér að stuðnings­fólki sínu, sýndi því fá­dæma virðingar­leysi, að sögn sann­kristinn maðurinn, en syndugur í sinni pólitík, svo um munar.

Birgir Þórarins­son vissi sem var að hann hlyti ekki fram­gang í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokksins á Suður­landi að þessu sinni, enda voru þar fyrir á fleti miklu sterkari fram­bjóð­endur í fyrstu sætunum, svo hann af­réð að not­færa sér stöðu sína í odd­vita­sæti Mið­flokksins til að komast bak­dyra­megin inn í fyrir­heitna landið.

Það er mis­notkun.

Og svo það sé aftur sagt.

Það er ein­beitt ó­svífni.

Og breytni mannsins er for­dæma­laus, enda muna elstu þing­menn ekki annað eins – og hafa margir tjáð sig um til­færsluna; menn heyi ekki kosninga­bar­áttu undir fölsku flaggi og sýni fólkinu sínu fingurinn þegar hún er af­staðin.

Mál­efna­legar á­stæður geta leitt til úr­sagnar fólks úr flokkum, svo sem gerðist á síðasta kjör­tíma­bili þegar tveir liðs­menn Vinstri grænna héldu á önnur mið sakir þeirrar grund­vallar­af­stöðu að vilja ekki vinna með í­haldinu. Mál­efna­legar á­stæður fyrir flokka­flakki Birgis eru í besta falli rýrar, ruglings­legar og ó­trú­verðugar.

Innan þing­flokks Sjálf­stæðis­flokksins segjast menn taka vel á móti Birgi. Það var og – í Jesú nafni, amen.