Í liðinni viku efndu Geðhjálp og Geðverndarfélag Íslands til málþings um börn foreldra með geðrænan vanda undir yfirskriftinni: Taktu eftir mér – hlustaðu á mig.

Þar tóku til máls innlendir og erlendir sérfræðingar með það að markmiði að greina stöðu þessara barna og hvað gera megi til að bæta hana.

Það er staðreynd að fjörutíu til fimmtíu prósent þeirra sem leggjast inn á geðdeild hér á landi eiga börn.

Skortur er á hérlendum rannsóknum um afleiðingar þess fyrir börn að alast upp hjá foreldri sem þjáist af geðrænum veikindum, en samkvæmt erlendum rannsóknum eru auknar líkur á að þessi sömu börn greinist sjálf með geðrænan vanda.

Þessi börn eru jafnframt líklegri til að flosna upp úr námi. Þeim er hættara við að missa heilsu og starfsgetu og hlutfall þeirra sem hafa verið í umönnunarhlutverki sem börn er hærra meðal öryrkja.

Stuðnings- og ráðgjafarsetrið Bergið tekur á móti ungu fólki sem þarf á aðstoð að halda en um 40 prósent þeirra sem þangað leita hafa alist upp hjá foreldrum með geðsjúkdóma eða fíkn.

Áhrif þess að alast upp hjá einstaklingi sem er veikur á geði og þurfa að taka að sér umönnunarhlutverk sem er flestum fullorðnum ofviða, vara nefnilega út lífið.

Börn í þessari stöðu þurfa oft að fullorðnast hratt, taka jafnvel ábyrgð á veiku foreldri sínu, yngri systkinum, heimilinu og auðvitað sjálfu sér. Einmitt á mótandi árum þegar börnin þurfa sem mestan stuðning sjálf.

Þau upplifa oft skert félagsleg tengsl og fyrir því geta verið margs konar ástæður; skortur á hvatningu og stuðningi, tímaleysi, ef börnin þurfa að taka að sér mörg önnur hlutverk og svo er það skömmin sem enn hefur ekki verið upprætt.

Börn sem alast upp hjá geðrænt veiku foreldri bjóða oft ekki vinum heim því metnaðarfullur feluleikur á sér stað. Þau vilja ekki að vinirnir sjái ástandið heima fyrir og leggja sig þá fram um að enginn viti af stöðunni.

Ef foreldrið hefur skert innsæi í eigin veikindi er ólíklegt að talað sé um þau á heimilinu. Barnið þarf þá að fylla í eyðurnar um hvað hrjáir mömmu eða pabba, hvernig sjúkdómurinn muni þróast og fær heldur ekki svar við stóru spurningunni: Mun ég veikjast líka?

Rannsóknir sýna að umtalsverð ábyrgð í umönnun og stuðningi við foreldri getur haft skaðleg áhrif á tilfinningalega, líkamlega og félagslega heilsu barna.

En hver styður svo við bakið á þessum börnum? Þar liggur stóri vandinn. Börn sem alast upp hjá foreldrum með alvarlegan geðrænan vanda eru ekki mjög sýnilegur hópur hér á landi og skortur á úrlausnum og stuðningi við þau er aðkallandi.

Sannað er að trúnaðarsamband við traustan fullorðinn einstakling er mikilvægt börnum. Mörg umræddra barna upplifa ekkert slíkt samband og því verðum við að breyta. Til þess þarf skimun í skólum til að hægt sé að greina mögulegan vanda. Eins þarf heilbrigðis- og félagslega kerfið að bregðast við.

Þegar manneskja greinist með geðsjúkdóm ætti það að vera ófrávíkjanleg regla að fjölskylda hennar fái raunverulegan stuðning.

Þessi börn mega ekki upplifa sig ein í heiminum!