Senn líður að áramótum og þegar að þeim kemur er vert að líta yfir farinn veg og horfa björtum augum til framtíðar.

Eitt af brýnustu verkefnum næsta árs er að hér takist að viðhalda efnahagslegum stöðugleika, enda mikilvægi hans fyrir velsæld þjóðarinnar ótvírætt.

Efnahagslegur stöðugleiki er fyrirbæri sem mörgum hættir til að taka sem sjálfsögðum hlut. Hann er einnig þess eðlis að fáir gefa honum gaum. Þegar í óefni er komið fer skortur á stöðugleika ekki fram hjá neinum, enda er hann forsenda þess að vel gangi í hagkerfinu.

Ein af stærstu áskorununum sem íslenskt efnahagslíf mun standa frammi fyrir á næsta ári er gerð kjarasamninga. Kjarasamningar eru lausir á seinni hluta næsta árs og forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa gefið það út að þeir muni sækja launahækkanir í tengslum við hagvaxtaraukann. Á sama tíma er lítið svigrúm til launahækkana í atvinnulífinu almennt og sérstaklega ekki í ferðaþjónustunni og þeim geirum sem hafa orðið hvað verst úti í sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda. Það er því óhætt að segja að það stefni í erfiða kjarasamningalotu og því mikilvægara en nokkru sinni að báðir aðilar hafi það að leiðarljósi að standa vörð um stöðugleikann. Það vill oft gleymast að það tapa allir á því að efnahagslegum stöðugleika sé ógnað og ekki síst lágtekjufólk og efnaminni heimili.

Verðbólgan mælist nú um 5,1 prósent og spilar húsnæðisliðurinn og innflutt verðbólga þar inn í. Í ljósi þessa er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að bæta ekki gráu ofan á svart með óábyrgum kjarasamningum.

Ef samið verður um óábyrgar launahækkanir mun verðbólga óhjákvæmilega aukast og kunnuglegt stef hefst þegar Seðlabankinn bregst við með tilheyrandi vaxtahækkunum.

Atvinnuleysi er einnig fylgifiskur þess þegar samið er um launahækkanir sem eru úr takti við efnahagslegan veruleika. Það hefur sýnt sig að atvinnuleysi bitnar hvað mest á fólki í láglaunastörfum og því ætti það að vera keppikefli verkalýðshreyfingarinnar að semja um hóflegar launahækkanir sem eru í takt við þann veruleika sem íslensk fyrirtæki búa við.

Það er ekki síður mikilvægt að stjórnvöld geri hvað þau geta til að liðka fyrir kjaraviðræðum til að tryggja stöðugleikann. Dæmi um slíkar aðgerðir væri lækkun tryggingargjaldsins, skattalækkanir og lækkun álaga og gjalda.

Mikilvægt er að hafa í huga að efnahagslegur stöðugleiki er ekki sjálfsagður og því er brýnt að allir leggi hönd á plóg til að tryggja að það sé veruleiki sem við munum búa við næstu misseri.

Það er óskandi að þjóðin beri gæfu til þess að standa vörð um kaupmáttinn og að aðilar vinnumarkaðsins semji af skynsemi í komandi kjaraviðræðum. Það er hagur okkar allra.