Leikarinn William Shatner varð í vikunni elstur manna til að fljúga út í geim, níræður að aldri. Shatner, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem geimkönnuðurinn kafteinn Kirk í sjónvarpsþáttunum Star Trek, táraðist við heimkomuna. Hann sagðist sleginn yfir því hversu „viðkvæmt allt virtist“ þar sem hann horfði til jarðar úr geimnum.

Tilfinningin sem Shatner lýsir er ekki einsdæmi. Fjöldi geimfara hefur upplifað mikið tilfinningarót við það að yfirgefa gufuhvolfið. Um er að ræða svo kölluð „yfirlitsáhrif“ (e. overview effect) sem birtast sem óttablandin lotning og yfirþyrmandi samkennd þegar horft er til jarðar úr fjarlægð.

Hér á jörðu niðri voru hlutirnir samir við sig. Stuðningsmenn breska úrvalsdeildarliðsins Newcastle fögnuðu á götum úti daginn sem fjárfestingafélag undir stjórn krónprins Sádí-Arabíu tók liðið yfir. Ekki dró úr gleðinni þótt mannréttindasamtök bentu á að prinsinn er sakaður um að vera harðstjóri sem virðir ekki mannréttindi, kúgar konur og lætur myrða blaðamenn.

Sama dag komst lögmaðurinn og mannréttindafrömuðurinn Cherie Blair, eiginkona Tony Blair, í fréttirnar. Það spurðist út að Cherie starfar sem ráðgjafi framleiðanda njósnaforrits sem komið hefur verið fyrir í símum blaðamanna, stjórnmálafólks og fulltrúa mannréttindasamtaka og verið notað af ríkisstjórnum um heim allan til þess að fremja mannréttindabrot. Kom forritið meðal annars við sögu á morðinu á sádí-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi sem fyrrnefndur krónprins hefur verið sakaður um að fyrirskipa.

Enn sama dag bárust fréttir af síaukinni umferð erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll. Fleiri farþegar gætu farið um Keflavíkurflugvöll árið 2024 en 2019 þrátt fyrir heimsfaraldurinn, samkvæmt samantekt Isavia. Var aukningin kennd við bjartsýni þótt þá um morguninn hefði einnig mátt lesa frétt um nýja rannsókn Bandarísku hjartasamtakanna um að loftmengun geti valdið hjartabilun.

Heimsmyndin og sjálfsmyndin

Einn þeirra fyrstu til að kynnast „yfirlitsáhrifunum“ var Michael Collins, sem flaug Apollo 11 til tunglsins árið 1969. „Það sem kom mér á óvart var hvað jörðin lítur út fyrir að vera brothætt,“ sagði Collins í viðtali stuttu fyrir andlát sitt fyrr á þessu ári. Algengt er að við geimförum blasi hversu viðkvæmur fölblái depillinn er sem við búum á. Það er þó ekki eina opinberunin sem fjarlægðin veldur.

Frank White er geimheimspekingur sem bjó til hugtakið „yfirlitsáhrif“. Hann segir sjónarhornið sem geimferðir veita breyti því hvernig einstaklingurinn sér sjálfan sig, jörðina og framtíðina. „Það eru engin landamæri eða skil á jörðinni önnur en þau sem við búum til í huganum og með hegðun okkar. Allt það sem skilur okkur að niðri á jörðinni byrjar að hverfa þegar sjónarhornið er sporbaugur jarðar eða tunglið. Heimsmyndin og sjálfsmyndin umturnast á augnabliki.“

Mannkynið stendur frammi fyrir fordæmalausri hættu. Loftslagshörmungar dynja yfir heimsbyggðina. Senn gætu stór svæði jarðar orðið óbyggileg. Aðeins eitt getur dregið úr skaðanum.

Ekki þarf annað en að fylgjast með fréttum í einn dag til að átta sig á að það er krónískur skortur mannkynsins á „yfirlitsáhrifum“ sem er okkur helst fjötur um fót. Daglega er meiri hagsmunum fórnað fyrir minni; mannréttindum fyrir fótbolta, prinsippum fyrir launaseðil, loftgæðum fyrir rekstrarhagnað Keflavíkurflugvallar.

Þegar William Shatner lenti aftur á jörðinni eftir geimförina fullyrti hann að „allir í veröldinni þyrftu að prófa þetta.“ Það verður ekki fyrr en við þróum öll með okkur yfirsýn geimfarans, hæfileikann til að sjá að jörðin er ein brothætt heild, að mannkyninu er borgið.