Bakþankar

Eilíf tímamót

Ég rakst á þrjátíu ára gamla blaðaúrklippu um daginn, svona gamaldags „spurning dagsins“, þar sem afgreiðslustúlka og lögregluþjónn voru spurð á förnum vegi hvort þau ætluðu að strengja áramótaheit.

„Nei, ég þarf ekki að heita neinu,“ svaraði unga afgreiðslustúlkan og var reglulega kotroskin á myndinni. Lögregluþjónninn brosti út að eyrum og svaraði: „Nei, nei, ég ætla bara að halda áfram með allar gömlu vitleysurnar.“

Hafði þetta fólk ekki heyrt talað um fimmtíu og tvo tinda, þúsund kílómetra hlaup eða kaldan pott?

Ég brosti yfir þessu í marga daga, en svo fóru að renna á mig tvær grímur.

Það VÆRI kannski ekki svo galið að strengja heit? Hætta vitleysu? Skella sér jafnvel upp á tind?

Það virðast margir velta þessu fyrir sér í upphafi árs; mest og best selda bók landsins þessa vikuna ber undirtitilinn: „betri heilsa og innihaldsríka líf“. Ég er ekki byrjuð að lesa. En er komin með eintak.

Nú ætla ég samt ekki að vera jafn bláeyg og þegar ég las bókina „Lærum að tefla“, í einum rykk. Ég hefði líklega átt að taka fram taflborðið.

Fyrir okkur sem misstum af áramótunum og þrettándanum, til að byrja nýja lífið, vil ég benda á að það eru eilíf tímamót.

Í dag eru tuttugu dagar frá vetrarsólstöðum: 40 dimmustu dagar ársins að baki. Ég hef tamið mér að halda upp á 5. febrúar, þegar 90 dimmustu dagarnir eru að baki.

Þá verð ég búin að lesa bókina og skelli mér í kaldan pott.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing