Talan 39 hefur verið áberandi síðustu daga. Hún stendur fyrir þá sem tóku eigið líf á síðasta ári og í reynd þann fjölda sem það gerir að meðaltali árlega undanfarinn áratug.

Þrjátíu og níu líf er of mikið, hvert einasta þeirra er of mikið. Fyrir átakinu sem einkennir sig með þessari tölu standa Landssamtökin Geðhjálp í samstarfi við Píeta samtökin.

Um fjölda þeirra sem falla fyrir eigin hendi hefur ekki verið mikið rætt fram til þessa. Aðstandendur átaksins segja mikilvægt að ræða sjálfsvíg og þann skyndilega missi, sársauka og sorg sem aðstandendur verða fyrir þegar eigið líf er tekið, en ekki síður ástæðuna sem að baki býr og orsakaþætti geðheilbrigðis, eins og fram kemur í leiðara Héðins Unnsteinssonar, formanns landssamtakanna, í nýútkomnu Geðhjálparblaði.

En það er fleira sem formaðurinn bendir á. Fram kemur að nú þegar nær átta mánuðir eru liðnir frá því að heimsfaraldur kórónaveirunnar hóf að breyta hugsana- og hegðunarmynstri fólks, sé ljóst að áhrifin á félagslegar og efnahagslegar orsakir geðheilsu verði mikil.

Á það hefur verið bent með vaxandi þunga undanfarið að langvarandi hliðarverkun af baráttunni við útbreiðslu veirunnar geti orðið þungbær. Sóttkví, félagsleg einangrun og samskiptaþurrð hafa neikvæð áhrif á andlega heilsu fólks.

Vel ritfærir menn hafa bent á að nú sé ekki tími til akademískra hugleiðinga um frelsi og að best sé að geyma þær þar til faraldurinn er genginn yfir.

Það er nákvæmlega núna sem rétti tíminn er til að huga að þessu atriði og jafnvel eru seinustu forvöð til að gera það. Síðar getur verið of seint.

Hvaða áhrif hefur það á ungviði sem ítrekað er lokað inni og klippt á samskipti við vini og vandamenn? Jafnvel liggja fyrir sterkar vísbendingar um að börn smiti ógjarnan önnur börn af veirunni og veikist þau, sé líklegt að þau verði einkennalítil.

Fram hefur komið í fréttum vikunnar að tæplega 400 börn hafi greinst með smit frá upphafi faraldursins. Ekkert þeirra var lagt inn á spítala og fá dæmi þess að börn hafi smitað fullorðna. Samt koma sóttvarnaaðgerðir hart niður á börnum og stöðugt eru fluttar fréttir af smiti sem upp kemur í skólastarfi sem veldur því að heilu bekkirnir, bekkjardeildir eða skólar, eru sett í sóttkví. Dæmi er um að tæplega 400 nemendum í skóla á höfuðborgarsvæðinu hafi verið fyrirskipuð sóttkví, því eitt þeirra greindist.

En það eru fleiri en börnin sem líða fyrir þetta fyrirkomulag. Áhrif þess ná til heimilismanna barnanna, vina þeirra og vandamanna. Sögur heyrast af fólki sem skikkað er í sóttkví af litlu eða engu tilefni. Óljós samskipti við þann sem svo reynist smitaður eru þá lögð til grundvallar fyrirmælum, sem skerða frelsi fólks. Vafinn túlkaður veirunni í hag og stjórnarskrárvarin réttindi látin víkja. Eru það akademískar hugleiðingar um frelsi að efast um að rétt sé að þessu staðið? Nei.

39 er stór tala. Við þurfum að binda svo um að sóttvörnin verði ekki skæðari en það sem hún beinist að.

Fyrir eigin hendi getum við breytt því.