Hvergi í Evrópu njóta jafnmargar starfsstéttir lögverndar eins og á Íslandi. Til að mega tilheyra slíkri starfsstétt þarf einstaklingur þannig að öðlast sérstaka löggildingu frá stjórnvöldum – störfin eru leyfisskyld. Þetta er iðulega rökstutt í nafni neytendaverndar en ætli ástæðan liggi ekki einnig hjá starfsstéttunum sjálfum? Stéttarhagsmunir í nafni neytendaverndar? Það er ekkert leyndarmál að þeim sem sinna starfi í skjóli sérstaks leyfis finnst glórulaust að hver sem er geti sinnt starfinu. Sjálfur tilheyri ég einni slíkri starfsstétt.

Lögmenn njóta einkaréttar þegar kemur að málflutningi fyrir dómstólum, þótt einstaklingar megi reyndar flytja eigin mál. Þetta telja flestir lögmenn eðlilegt og þætti jafnvel fráleitt ef aðrir, sem ekki hafa lokið lögfræðiprófi, fengju að flytja mál fyrir dómstólum fyrir hönd annarra. Því er ég ósammála. Þótt margar praktískar ástæður mæli fyrir slíkum einkarétti (aðallega aukið álag á dómstóla ef málflytjendur þekkja ekki réttarfarsreglur) hljóta það að teljast aukaatriði þegar litið er til þess að aðgengi að dómstólum telst til grundvallarmannréttinda. Fyrst Jón má sjálfur flytja mál sitt fyrir dómstólum, hvers vegna má hann ekki fela Gunnu frænku sinni að flytja málið? Hvern er verið að vernda með því?

Vissulega kemur það okkur lögmönnum vel að hafa einkarétt til málflutnings, rétt eins og það kemur lærðum ljósmyndara, bakara, söðlasmið, feldskera, hattagerðarmanni, leigubílstjóra, skrúðgarðyrkjumanni og veggfóðrara vel að hafa girðingar í kringum sig, sem hindra aðra frá því að reyna fyrir sér í greininni. Allt eru þetta afar mikilvæg störf, en þau þurfa tæpast að vera lögvernduð. Það er öðrum ekki til góðs.