Lengi var ljómi yfir langskólabóknámi hér á landi. Líklega var það arfleifð frá gamalli tíð þegar ekki aðeins þurfti námshæfileika til að leggja í langan námsferil heldur þurfti til þess mikið fé. Lengi vel gafst aðeins þeim sem af efnafólki voru komnir tækifæri til þess að halda í langskólanám.

Sú var líka tíðin að þeir sem lagt höfðu að baki langskólanám máttu gefa sér að geta valið úr störfum og búið við fjárhagslegt öryggi. Þessar aðstæður leiddu af sér menntahroka þar sem nám af öðru tagi þótti ómerkilegra og ekki eins eftirsóknarvert. Fjölskyldur þrýstu á ungmenni að hefja nám sem hugur ungmennanna stóð ef til vill ekki til.

Í Fréttablaðinu í vikunni sagði frá því að á síðasta ári hefðu 804 nemendur verið útskrifaðir af iðnnámsbrautum í framhaldsskóla og brautskráðum hefði fjölgað mikið undanfarin ár. Frá 2017 til 2020 hefði fjölgað um 25 prósent og var þar vísað til nýrrar greiningar Samtaka iðnaðarins. Í fréttinni er haft eftir Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra samtakanna, að OECD hafi bent á að það hafi neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu landsins að of fáir útskrifist með iðn- og tæknimenntun.

Þá er skemmst að minnast þess að yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði í fjölmiðlum nýlega að þekking og færni vinnuaflsins hér á landi væri mjög mikil en samt væri það svo að nýtingin og aukning verðmæta í upplýsingatækni og hátækni væri ekki í réttu hlutfalli við getu og færni þjóðarinnar og vinnuaflsins.

Á það var bent að einhæfni í atvinnulífi þar sem ferðaþjónustan bar ægishjálm yfir aðrar atvinnugreinar þegar heimsfaraldurinn skall á hefði verið veikleiki og úr því þyrfti að bæta. Efling iðnmenntunar og fjölgun þeirra sem leggja fyrir sig iðngreinar er einmitt til þess fallin. Fjölgun brautskráninga af iðnnámsbrautum segir Sigurður í fréttinni að megi þakka kynningarstarfi, laga- og reglugerðarbreytingum stjórnvalda og aukinni uppbyggingu í málaflokknum.

Í vikunni varð að lögum frumvarp um aðgengi að háskólum sem gerir það að verkum að þau sem ljúka iðn- og starfsnámi fái aðgang að háskólum, uppfylli það ákveðin skilyrði, líkt og þau sem útskrifast af bóknámsbrautum framhaldsskóla. Fyrr á árinu var samþykkt reglugerð um vinnustaðanám sem Sigurður segir gjörbreyta fyrirkomulagi þess.

Í mörgum greinum iðnnáms hefur helsti þröskuld­urinn verið að komast á samning hjá iðnmeistara sem áður var skilyrði fyrir því að hægt væri að ljúka námi. Nú hefur breyting orðið þar á. Nú þurfa nemar ekki lengur að komast á samning hjá meistara og geta farið svokallaða skólaleið þar sem skóli þeirra ber ábyrgð á þessum hluta námsins. Nemar geta því farið til margra meistara og verið hjá þeim til styttri tíma, þar sem þeir geta stundað afmarkaðri hluta námsins.

Eitt af því sem faraldurinn hefur kennt okkur er hve kerfin sem við reiðum okkur á eru viðkvæm og lítið má út af bregða svo illa fari. Í því sambandi er því mikilvægt að bera ekki öll eggin í sömu körfu.

Aukin aðsókn í iðn- og starfsnám er sannarlega gleðileg í því samhengi. n