Skoðun

Þegar prófessorinn keyrði beint út í skurð

Ég átti gott og langt spjall við góðkunningja minn Þorvald Gylfason prófessor á dögunum. Fór vel á með okkur, vorum við sammála um gagnsemi EES, ESB og evrunnar og margt annað.

Okkur var báðum ljóst, að afar brýnt væri fyrir börn okkar og barnabörn, að öll ríki Evrópu stæðu saman og mynduðu sterka og órofa heild, til að standa af sér áskoranir og ógnir framtíðarinnar, en um næstu aldamót verða jarðarbúar um 11,5 milljarðar, en Evrópubúar ekki nema 0,5 milljarðar, eða rétt 4-5% af jarðarbúum.

Hvatti ég Þorvald, sem auðvitað er einn færasti hagfræðingur og stjórnmálafræðingur landsins, til að skrifa nú góða og gagnlega hluti um EES/ESB/Evrópu/evruna í pistlum sínum.

Það gladdi mig svo fyrst, að sjá fyrirsögnina „Lýðræði, Evrópa og ríkidæmi“ á vikulegum pistli Þorvaldar í blaðinu 5. apríl sl. Nú kæmi Þorvaldur með gott framlag fyrir Evrópu inn í umræðuna.

Það sýndi sig hins vegar hér, að undantekningin sannar regluna. Jafn fróðlegar, upplýsandi og fínar greinar Þorvaldar oftast eru, keyrði hann hér beint út í skurð, með óskiljanlegri skoðun og samanburði og enn furðulegri niðurstöðu. Rann því nokkuð af mér lestrargleðin og kólnaði morgunverðurinn á diskinum þann morguninn.

Prófessorinn bar annars vegar saman Svíþjóð og Finnland og hins vegar Sviss og Austurríki, færði málið líka stuttlega yfir til Kanada og USA. Kom svo með þá kláru og skýru niðurstöðu, að það skipti ekki máli, hvort þjóðríki væri í EES/ESB, eða hefði evru, eða ekki, ef vel væri á málum haldið heima fyrir. Það væri punkturinn. Góð heimastjórn dygði fyllilega. Vildi hann svo með þessu skýra – jafnvel réttlæta – athafnir og stefnu þeirra manna, sem leiddu Breta í Brexit.

Um þá niðurstöðu Þorvaldar, að aðild að ESB og evrusamstarfinu skipti ekki máli, ef góðir og færir menn stýra málum heima fyrir, skal þetta sagt:

Ludwig Erhard er þekktasti og færasti efnahagssérfræðingur Þjóðverja, ef ekki Evrópu, og þýzka markið var einn traustasti gjaldmiðill heims. Samkvæmt Þorvaldi höfðu Þjóðverjar því ekkert að gera í ESB. Hvers konar bjálfaháttur skyldi það þá hafa verið í Erhard, Konrad Adenauer og Co að vera að þvæla sér í að stofna og ganga í ESB?

Í 10 ár, frá 1963 til 1973, barðist hver ríkisstjórnin í Bretlandi á fætur annarri, Harold Macmillan, Harold Wilson og svo Edward Heath, af öllu afli fyrir því, að Bretar fengju aðild að ESB til að tryggja efnahagslega og stjórnmálalega hagsmuni síðan.

Synd að þessir menn skyldu ekki hafa skilið, að þeir hefðu getað stjórnað og tryggt hagsmuni Bretlands jafn vel – eða kannski betur – bara sjálfir. Eða, voru þeir kannski ekki nógu góðir og klárir? Voru froðusnakkurinn Nigel Farage og flóafíflið Boris Johnson kannski þeir einu, sem skildu og sáu, að Bretar gætu stjórnað sér bezt sjálfir og brillerað í einangrun?

Ekki verður margt gott um þjóðarleiðtoga hinna 27 ESB-ríkjanna sagt, sem í einfeldni sinni héldu, að þeim og þeirra þjóðum væri bezt borgið í ESB. Skildu þessir menn ekki, að með góðri og vandaðri heimastjórn væru þeir jafn vel eða kannski betur komnir?

Ekki veit ég heldur, hvað Tyrkir hafa verið að eyða tímanum í það á annan áratug að reyna að fá aðild að ESB; þessir menn hljóta þó að skilja, að með góðri heimastjórn eru þeir jafn vel komnir.

Og, hvað með Úkraínumenn og öll Balkanlöndin, sem hanga á húninum á dyrum ESB grátbiðjandi um inngöngu? Ekki vaða þessir menn í vitinu!

Og, hvað voru frændur okkar Norðmenn, með allan sinn olíuauð, alla sína vizku og öll sín stjórnunargæði að sækjast eftir 80% ESB-aðild, í gegnum EES-samning, og hvernig datt Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs á Íslandi, í hug að skrifa grein í blaðið 10. marz sl. undir fyrirsögninni „EES-samningurinn, okkar sameiginlega velferð“? Hvers konar kvenmenn eru Norðmenn eiginlega að senda til landsins? Og, vita Norðmenn ekki, að þeir hafa ekkert með einhvern EES-samning að gera?

Já, það vantar virkilega uppfræðslu og leiðsögn í þessum blessaða heimi.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Skoðun

„Ég er nóg“
Óttar Guðmundsson

Skoðun

Þriggja metra skítaskán
Sif Sigmarsdóttir

Skoðun

Lýst er eftir leiðtoga
Kristín Þorsteinsdóttir

Auglýsing

Nýjast

Er um­ræðan um klukku­stillingu á villi­götum?
Gunnlaugur Björnsson

Nóg hvað?
Þórarinn Þórarinsson

Tilgang lífsins er að finna í þessum pistli
Þórlindur Kjartansson

Eina leiðin
Hörður Ægisson

Á skíði fyrir sumarbyrjun
Katrín Atladóttir

Fjölgun hjúkrunar­fræði­nema við HA
Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir

Auglýsing