Tíminn líður hratt og hlutir sem áður þóttu sjálfsagðir eru í dag eitthvað sem ekki nokkur maður skilur. Ágætis dæmi um slíkt eru reykingar, en fyrir ekki svo löngu reykti fólk á skemmti- og veitingastöðum. Það þótti líka fyndið og í fínu lagi að tala um aðra kynþætti með fyrirlitningu og háði. Í ljósi þessa ætla ég að spá aðeins fyrir um framtíðina og hvernig Ísland verði árið 2050.

Samfélagið okkar er enn gegnsýrt af neyslu áfengis sem hefur skelfilegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu fjölda fólks. Til marks um þetta er það enn svo að fólk sem ekki drekkur þarf reglulega að svara fyrir það á mannamótum af hverju það tekur ekki þátt í gleðinni. Ég spái því að samhliða aukinni vitund um alvarlegar afleiðingar áfengis á andlega og líkamlega heilsu verði áfengisneysla jafn jaðarsett og reykingar eru í dag. Önnur vímuefni verða líka orðin lögleg og litið verður á neyslu allra vímuefna sem heilbrigðisvandamál. Neysla á kjöti mun dragast stórkostlega saman. Verksmiðjubúskapur mun leggjast af og gerðar verða kröfur um lífrænar afurðir og mannúðlegan aðbúnað dýra. Sjálfur sé ég þessa þróun hjá dætrum mínum og vinum þeirra sem ekki hafa neytt dýraafurða í mörg ár. Þessi þróun verður ekki stöðvuð.

En mesta breytingin mun verða á samfélögum okkar á Vesturlöndum. Árið 2050 munum við þurfa að stórauka innflutning á fólki vegna fólksfækkunar. Vegna þessa mun verða samkeppni um fólk. Afleiðing þessa verður að flest vestræn samfélög munu taka upp ensku sem annað tungumál til að bæta samkeppnisstöðu sína og auðvelda fólki að setjast hér að. Remember I told you so.