Það er gott að vita til þess að það er einhver þarna úti sem saknar þín, þegar þú hefur ekki verið í bandi lengi. Einhver sem bíður þegar þú hefur ekki haft tíma til að hringja, mæta í kaffi eða senda skilaboð. Þessa daga þegar þú rétt hefur tíma til að setja hjörtu við samfélagsmiðlafærslurnar til að sýna að þú sért enn á lífi.

Við þurfum öll á því að halda, að vita að það sé einhver sem hefur þörf fyrir okkur. Að það sé einhver sem sér okkur. Að við skiptum máli.Hjá þeim sem hafa hugann við dauðann getur þetta brotist út sem ótti við að engin mæti í jarðarförina. Að lífið hafi ekki verið nógu markvert til að snerta líf annarra og því verði síðustu skrefin tekin einsömul (svona óháð því að öll munum við deyja ein).

Og dauðinn verði endanlegur því minningin muni ekki lifa.Oftast fáum við staðfestinguna um að við skiptum máli frá fjölskyldu og nánum vinum. Jafnvel frá gæludýrum. Þeim sem okkur þykir vænst um og þeim sem þykir vænst um okkur. En þessi skilaboð berast víðar að.Þess vegna þykir mér svo vænt um að líkamsræktarstöðin mín sendir mér póst, um það bil vikulega, með skilaboðunum „Við söknum þín, Svanborg“.

Ég mun fljótlega gefa mér tíma til að heilsa upp á þau, lyfta nokkrum lóðum og þykjast sjá vöðvana stækka. Fyrst þarf ég bara að hjálpa öðrum að koma þeim skilaboðum á framfæri að „Ég sé þig. Þú skiptir máli.“ Svo er bara að sjá hvort einhver muni hlusta.