Að vera útlendingur er stundum einsog að vera í menningarlegu útgöngubanni, ekki síst þegar Íslandsþráin heltekur mig. Slíkur óri getur tekið á sig ýmsar myndir en oftast byrjar þetta á því að ég leita að Hauki Morthens á Þú-rörinu en angurværðin kemst svo í óþekktar hæðir meðan ég tek undir með Jóhönnu Guðrúnu að syngja Vetrarsól. Þá tekur kátínan við og ég fæ Pétur Jóhann til að hringja í bakarí til að spyrja um kjellinn en svo þetta endi ekki í eintómum vitleysisgangi þyl ég svo Skúlaskeið eftir Grím Thomsen á svölunum fyrir háttinn.

Þeir sem fá pata af þessu brölti mínu horfa á mig samúðaraugum næstu daga einsog ég hafi nýlega greinst með COVID. Þó er þetta skárra en þegar Grikklandsþráin heltekur mig en það getur hæglega endað með arnardansi inní eldhúsi. Þeir sem séð hafa Zorba halda kannski að það sé eitthvert augnayndi en svo er ekki og hefur kona mín haft orð á því að ég taki mig út einsog hrægammur sem komist ekki á loft.

En nú virðist COVID ætla að koma mér til bjargar. Allavega sá ég listamanninn mikla Eyþór Inga á Fasbókinni reyna að fylkja liði bakvið sig á heimatónleika, allir heima hjá sér en samt allir saman.

Þetta þýðir ekki aðeins að ég geti sefað Íslandsþrána í félagsskap næst þegar hún þjakar mig heldur færir þetta mig í sanninn um að ekkert sé eðlilegra en einmana sál inní eldhúsi sem leitar, í öngum sínum, að því besta sem í mannsandanum býr.