Aðkoma ungs fólks í stjórnmálum er dásömuð en samt sem áður hafa stjórnmál verið ungu fólki mjög óaðgengileg. Oft á tíðum er um ákveðna skrautfjöðrun að ræða þar sem ungmennum er stillt upp á viðburðum en fá lítinn sem engan hljómgrunn.

Ætlast er til að ungt fólk skapi sér sína eigin rödd. Hvernig skapar maður sér rödd í kerfi sem er jafn flókið og stjórnsýslan á Íslandi? Að auki er manni sagt ítrekað að maður skilji ekki viðfangsefnið eða kerfið.

Þúsundir ungmenna hafa skrópað í skólanum á föstudögum og mætt á verkfall fyrir loftslagið. Við erum logandi hrædd um þá framtíðarsýn sem vísindamenn leggja fram ef ekki verður gripið í taumana strax. Ráðaleysi og kvíði grípa marga þegar óttinn fær ekki farveg. Það sem vantar eru leiðbeiningar og valdefling til þess að þora að koma fram og tala sínu máli.

Ungir umhverfissinnar hafa undanfarin ár aflað sér dýrmætrar reynslu í að verja hagsmuni náttúrunnar. Við viljum deila þessari reynslu og gera öðrum ungmennum kleift að hafa áhrif á samfélagið sem við búum í. Við sýnum öðrum hagsmunaaðilum kurteisi og skilning og ætlumst til þess að fá sama viðmót til baka.

Þeir hagsmunir sem við verjum eru að náttúruvernd sé kjarni þess að við getum átt farsæla framtíð. Náttúran og vistkerfi hennar eru nefnilega uppspretta alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða, sama hvort það sé maturinn sem við borðum, fötin sem við klæðumst eða húsið sem við búum í.

Þann 17. október næstkomandi komum við til með að halda viðburð þar sem við kynnum námskeið sem við hyggjumst halda í vetur. Námskeiðið er um þá reynslu sem við höfum öðlast og einnig þá vigt og ábyrgð sem fylgir því að hafa félagasamtök á bak við sig. Kynningin verður haldin í Petersen svítunni klukkan 18.00.

Í framtíðinni verður litið til okkar kynslóðar og til þess hóps sem lét verkin tala. Ég ætla mér að vera partur af þeim hópi. En þú?