Sjálfsmynd mín hvílir meðal annars á þeim stoðum að ég sé góður og löghlýðinn þannig að siðferði hefur alltaf verið mér ákaflega mikilvægt. Svo mjög að þegar ég spila tölvuleiki þar sem gefinn er kostur á að vera illur, eða taka siðlausar ákvarðanir, þá sleppi ég því. Ég fæ því eðlilega sjaldan samviskubit eða skömmustutilfinningu.
Nema núna, eftir að hafa framið rán í Bónusverslun í fyrradag. Ég var nýkominn úr drykk með vinnufélögum, með tvo í blóðinu og hlaðvarp í eyrunum, þegar ég mundi að það vantaði klósettpappír á heimilið. Sannkallaða nauðsynjavöru. Þannig að ég dreif mig í Bónus.
Ákaflega annars hugar vafraði ég um verslunina, náði í klósettpappírinn og þrennt til viðbótar og fór svo að sjálfsögðu beint á sjálfsafgreiðslukassann.
Samræðurnar í hlaðvarpinu voru sérlega merkilegar þannig að hugur minn var við allt annað en sjálfsafgreiðsluna. Vöðvaminnið tók stjórnina og ég borgaði, að ég hélt, setti vörurnar í pokann og rölti út.
Þá tek ég eftir því að það er aðvörun á pokasvæðinu! „Haha, heimski kassi, ég er búinn að taka vörurnar mínar,“ hugsa ég áður en ég rölti út. Svo held ég áfram að hlusta á samræður um hörmungar helgarinnar í enska boltanum í svona tíu mínútur áður en það fara að renna á mig tvær grímur. Borgaði ég?
Guð minn góður! Rúllaði yfir Apple Pay. Ekkert. Maður minn. Ég er þjófur og búið að loka Bónus! Ég sendi þeim strax póst, verandi af þúsaldarkynslóðinni, og grátbað um fyrirgefningu og tækifæri til að leiðrétta þetta. Engin svör hafa enn borist en vonandi léttist þrúgandi samviskubitið eftir þessa játningu mína fyrir alþjóð.