– Ég ákæri Dag B. Eggertsson borgarstjóra fyrir þann óskiljanlega gjörning að keyra í gegnum borgarráð ákvörðun um að leggja Borgarskjalasafnið niður fyrir nokkrum dögum.

– Ég ákæri borgarstjórnarmeirihlutann fyrir að ganga í þá gildru að samþykkja þá ráðstöfun að leggja þessa mikilvægu menningarstofnun niður og beita við það brögðum þegar málinu var rennt í gegnum borgarstjórn á mettíma og án mikillar umræðu.

– Ég ákæri þá fulltrúa meirihlutans í borgarstjórn sem réðust með andstyggilegum hætti að borgarskjalaverði, Svanhildi Bogadóttur, sem hefur í áratugi byggt upp safnið ásamt sínu starfsfólki af mikilli elju og natni.

– Ég ákæri borgarstjórnarflokk Pírata fyrir að fórna sannfæringu sinni um mikilvægi upplýsinga- og lýðræðisstofnana á borð við Borgarskjalasafnið fyrir völd og áhrif.

– Ég ákæri borgarstjórnarflokk Samfylkingarinnar fyrir að falla frá hugmyndum um mikilvægi menningar í landinu þegar hann stóð að þessari vanhugsuðu ákvörðun að snúa Borgarskjalasafnið niður.

Lesendur góðir – hvers vegna skyldi prófessor í menningarsögu við Háskóla Íslands standa upp frá borði sínu, steyta hnefa framan í mann og annan og krefjast þess að ákvörðun löglega kjörinna stjórnmálamanna verði dregin til baka? Ástæðan er einföld. Ég gjörþekki málið og hef komist að þeirri niðurstöðu að hér hafi verið höfð brögð í tafli. Ég hef líka kynnt mér málavöxtu, hvað liggi þessari ákvörðun að baki, og ég sé að plaggið sem þetta mál byggir á og samið var af endurskoðunarskrifstofu úti í bæ, er hrákasmíð. Ég óskaði fyrir nokkrum dögum eftir því að einn fulltrúi í borgarstjórn, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, útskýrði fyrir háskólasamfélaginu hvers vegna hún stóð að þessari vanhugsuðu ákvörðun. Það hefur hún gert og svar hennar er því miður fullt af missögnum og afhjúpar lítinn skilningi á mikilvægi Borgarskjalasafnsins. Mér fannst nauðsynlegt að óska eftir svari hennar á póstlista Háskóla Íslands því að með ólíkindum má telja að manneskja sem tilheyrir vísindasamfélaginu gæti stutt mál af þessu tagi.

En um hvað snýst þá málið? Borgarstjóri og borgarstjórn hafa samþykkt að leggja Borgarskjalsafnið niður á þeim forsendum að það myndi kosta stórkostlega fjármuni að halda því gangandi á næstu árum eða áratugum. Skjalasöfn landsins stæðu frammi fyrir nýrri áskorun sem tengist hinni stafrænu byltingu og því væri þetta safn betur komið í höndum starfsmanna Þjóðskjalasafns Íslands. Með öðrum orðum, rökin byggjast á tækninauðhyggju en horft er fram hjá öðrum mikilvægum þáttum í starfsemi safna af þessu tagi.

Hverjir skyldu þeir þættir þá vera? Um leið og borgarstjórn Reykjavíkur snýr þessa stofnun niður og ætlar henni að hverfa inn á vettvang Þjóðskjalasafns þá missum við tökin á því mikilvæga starfi sem unnið er í Borgarskjalasafninu við að þjóna nærsamfélaginu – okkur íbúum Reykjavíkur – og í leiðinni menningu, vísindum og fræðum. Lykillinn að starfi Borgarskjalasafnisins er sérstaða þess og nálægðin við verkefnið; að halda utan um líf íbúa Reykjavíkur bæði í gegnum stofnanir Borgarinnar og einkaskjöl sem tilheyra okkur. Það er þekkt að þessi tengsl við söfnin skipta sköpum við öflun gagna, varðveislu þeirra og miðlun. Þetta vita allir sem eitthvað hafa komið nálægt safnageiranum; vísindamenn, safnafólk og almennir notendur. Rannsóknir á einkaskjölum hafa gríðarleg áhrif á ritun sögunnar og hvernig við skiljum fortíðina. Þau eru lykilheimildir á vettvangi hug- og félagsvísinda.

„Einnig hefur það vafist fyrir mörgum að gögnum sé dreift um of,“ sagði Árelía Eydís í skeyti sínu á póstlista Háskóla Íslands fyrir nokkrum dögum og nefndi þar gögn Ólafs Thors sérstaklega – þau ættu frekar heima í Þjóðskjalasafni. Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson, Björn Þórðarson og fleiri stjórnmálamenn voru allir opinberar persónur en einnig einstaklingar með sína sögu og sín einkaskjöl sem bjuggu og störfuðu í Reykjavík. Bjarni Benediktsson var meira að segja borgarstjóri eins og kunnugt er en ættingjar þessara manna hafa kosið, með mjög góðum rökum að ég tel, að vista þessar mikilvægu heimildir á vettvangi Borgarskjalasafnsins. Þeir kusu að fara með þessi gögn þangað en ekki í Þjóðskjalasafnið. Engum vafa er undirorpið að Björn Bjarnason fyrrverandi menntamálaráðherra áttaði sig fullkomlega á starfsemi Þjóðskjalasafnsins – hann og hans fjölskylda kusu að varðveita einkaskjalasafn föður síns í Borgarskjalasafninu vegna þess að samkvæmt hlutverkum þess áttu heimildir hans best heima þar.

Til að skýra þetta ögn betur þá er meginreglan sú að Þjóðskjalasafnið varðveitir opinber skjöl frá öllu landinu, Borgarskjalasafnið heldur utan um heimildir sem tilheyra stofnunum Reykjavíkurborgar og leiðbeinir þeim um varðveisluna. Þjóðskjalasafninu hefur einnig borist nokkuð af einkaskjölum í gegnum tíðina sem það varðveitir en það er samt aukageta hjá safninu. Borgarskjalasafnið safnar hins vegar markvisst einkaskjölum frá okkur borgarbúum og leitast við að komast yfir slíkar heimildir eins og í tilfelli ofangreindra stjórnmálamanna og einnig almennra borgara. Og þarna kemur styrkleiki Borgarskjalasafnsins einmitt fram, tengslin við okkur borgarana frá fyrstu tíð, svo sem í gegnum skólakerfið. Safnið stendur okkur nefnilega nærri þar sem það varðveitir heimildir um hvern og einn íbúa Reykjavíkur.

Nú fáum við hins vegar fregnir af því að meirihluta borgarstjórnar finnist gögnin vera of dreifð. Hvers konar rök eru það? Hvað heldur meirihlutinn í borgarstjórn að forsvarsmenn Samtakanna ‘78, Alnæmissamtakanna og fleiri hópa sem hafa kosið að fela Borgarskjalasafninu og sérhæfðum starfsmönnum þess að varðveita viðkvæm gögn þeirra segi um þessa ráðstöfun? Verður ef til vill farið að ráðum „sérfræðinganna“ sem sömdu skýrsluna um að leggja safnið niður, að þessi gögn og önnur einkaskjöl verði afhent yfir afgreiðsluborðið í Borgarbókasafninu?

Hér stendur ekki steinn yfir steini og þó hef ég aðeins tæpt stuttlega á nokkrum atriðum. Auðvitað er ekkert nema sjálfsagt að héraðsskjalasöfn, eins og Borgarskjalasafnið, vinni með Þjóðskjalasafni að áskorunum framtíðar. Að hefja þá samvinnu á að leggja Borgarskjalasafnið niður er hrein fjarstæða, vanhugsuð ákvörðun sem er svo alvarleg að krefjast verður að borgarstjórn dragi þessa ákvörðun sína til baka. Það sem svíður ef til vill mest er hvað skilningurinn á merkingu Borgarskjalasafns fyrir menningarlíf Reykjavíkur er lítill, hvað skeytingarleysið fyrir þýðingu safnsins fyrir vísindastörf í landinu er yfirþyrmandi og hvað virðingarleysið fyrir starfi fólksins sem hefur lagt líf sitt og sál í uppbyggingu safnsins er algjört.