Það var á tröppunum fyrir framan minnismerki Abrahams Lincoln, sem mannréttindafrömuðurinn Martin Luther King yngri flutti ræðu sem lét engan ósnortinn. „Ég á mér draum um að börnin mín fjögur muni einn daginn búa í landi þar sem þau verða ekki dæmd eftir húðlit sínum heldur eftir mannkostum sínum.“ Þetta voru firnasterk skilaboð, flutt í tímalausri ræðu. Síðan eru liðin tæp sextíu ár og enn í dag óma þessi frægu orð. Í skilaboðunum felast einföld sannindi: Við eigum rétt á því að komið sé fram við okkur út frá því hvaða manneskju við höfum að geyma, en ekki hvaða hópi við tilheyrum. Kynferði, kynhneigð, húðlitur eða trúarbrögð skipta engu máli.

Þrátt fyrir þessi skýru skilaboð Martins Luther King, sem flestir þykjast vera sammála, er það engu að síður svo að sjaldan hefur þjóðfélagsumræða verið eins gegnsýrð af flokkadráttum og hópamyndunum. Engu máli virðist skipta hvaða mannkostum einstaklingurinn býr yfir heldur skiptir öllu máli hvaða þjóðfélagshópi hann tilheyrir. Flokkunarárátta hefur borið skynsemina ofurliði og umræðunni er stýrt af fulltrúum mismunandi hópa, sem þykjast tala fyrir hönd annarra.

Það er ekki til neitt sem heitir „rödd“ kvenna, „vilji“ þjóðar, „skoðanir“ innflytjenda eða „sjónarmið“ karla. Þótt fólk fæðist inn í tiltekinn hóp þá deilir það ekki sjálfkrafa skoðunum. Margir eiga jafnvel ekkert sameiginlegt með öðrum í „sínum“ hópi. Konur eru ósammála öðrum konum og samkynhneigðir karlar geta verið ósammála samkynhneigðum konum. Öll erum við einstaklingar og ekkert okkar er eins og einhver annar. Þetta reyndi Martin Luther King að segja okkur og við megum leggja betur við hlustir.