Fyrir viku lýsti ég hér áhyggjum af mögulegu vali Bandaríkjaforseta á hæstaréttardómara. Nú, sléttum fimm vikum fyrir forsetakosningar þar í landi, hefur ótti minn og fjölmargra verið staðfestur.

Á laugardaginn tilnefndi Trump Amy Coney Barrett sem eftirmann Ruth Bader Ginsburg.

Amy er þriðji hæstaréttardómarinn sem Donald Trump tilnefnir í valdatíð sinni og ef tilnefning hennar hlýtur náð fyrir þinginu er hætta á að dómstóllinn hallist enn frekar í átt að íhaldssömum gildum.

Amy hefur verið kölluð eftirlæti íhaldsins enda strangtrúaður kaþólikki sem hefur greitt harðri útlendingalöggjöf Trumps atkvæði, er fylgjandi rýmri heimildum til byssueignar og talin líkleg til að kjósa gegn Obamacare, almannatryggingakerfi sem forveri Trumps kom af stað.

Amy er jafnframt sjö barna móðir sem trúir því að líf hefjist við getnað og er því í sérlegu uppáhaldi hjá þeim sem vilja afnema Roe v. Wade sem verndað hefur rétt bandarískra kvenna til þungunarrofs frá árinu 1973.

Hún er meðlimur í kaþólska söfnuðinum People of Praise sem meðlimir gera ævilangan sáttmála við.

Söfnuðurinn hætti nýverið að nota orðið „handmaid“ um kvenkyns trúarráðgjafa sína. Líklega er ég ekki sú eina sem fær kaldan hroll við þessa tengingu við bókina The Handmaid’s Tale eftir Margaret Atwood. Í þeirri bók er frjósömum konum haldið sem barneignaþrælum og kallaðar „handmaids“.

Samkvæmt stefnu safnaðarins er boðun Nýja testamentisins um að karlinn sé höfuð fjölskyldunnar fylgt og hjónaband og fjölskylda stofnuð af karli og konu.

Tilnefning Trumps hefur því verið gagnrýnd af þeim sem standa vilja vörð um rétt kvenna til þungunarrofs og forsvarsmönnum LGBTQ-samfélagsins.

Til þess að átta sig almennilega á þeirri vá sem nú steðjar að einu valdamesta ríki heims er mikilvægt að átta sig á að þar er jafnrétti kynjanna hvergi nærri náð. Heilbrigðisþjónusta er lúxus hinna efnameiri og fordómar og misrétti gagnvart LGBTQ-fólki er því miður enn við lýði og oftar en ekki undir yfirskyni trúar.

Trump rær nú öllum árum að því að fjallað verði um tilnefningu Amy fyrir kosningarnar eftir fimm vikur. Er sú flýtimeðferð algjörlega á skjön við það sem Repúblikanar úrskurðuðu þegar Obama tilnefndi Merrick Garland árið 2016. Ákvörðunin um að næsti forseti, sem varð svo Trump, skyldi tilnefna næsta dómara, stóð. Þá lá nú aldeilis ekki á að finna eftirmanninn.

Að 48 ára gömul sjö barna móðir sé tilnefnd af karli sem iðkar kvenfyrirlitningu eins og um keppnisíþrótt sé að ræða, gæti hljómað eins og framfaraskref í eyrum einhverra.

Því fer því miður fjarri. Ef Trump nær að koma Amy Coney Barrett í hæstarétt er hætt við að rétturinn færist tugi ára aftur á bak.