Því hefur verið haldið fram að eftirlitsiðnaðurinn hér á landi sé fyrirferðarmikill og sogi til sín of mikið fé. Það má rökstyðja það. En það má líka benda á að eftirlit sé nauðsyn, ekki síst þegar líf og limir eru undir.

Tvennt hefur nýlega gerst sem koma hefði mátt í veg fyrir hefði eftirliti verið sinnt. Annars vegar er mannskæður bruni í Vesturbænum í Reykjavík í liðinni viku þar sem þrír fórust. Hins vegar banaslys á Kjalarnesi þar sem tvennt fórst.

Í fjölmiðlum hefur verið rifjað ýmislegt upp um sögu hússins sem brann. Það er dapurlegur lestur. Af honum má ráða að árum saman hafi brunavörnum verið áfátt og flóttaleiðir fátæklegar. Samt viðgekkst að þar væri fólki búin vist, fólki sem hingað hafði flust. Upplýst var að fyrir skipulagsyfirvöldum lægi erindi um að auka enn frekar ábúð í húsinu. Það verður ekki. Það skortir ekki á fyrirmæli í byggingarreglugerðum um öryggi og aðbúnað þegar nýbyggingar eiga í hlut. En það virðist auðvelt að taka löngu byggð hús úr byggingarefnum sem þá tíðkuðust eða hús sem ætluð voru til annarra nota og breyta þeim í dauðagildrur og bjóða erlendu vinnuafli, sem hingað leitar betra lífs, og leigja dýru verði. Jafnvel greiða fyrir dvölina með lífi sínu. Þegar ekki má reisa pall, girðingu eða saga niður tré án leyfis, hvernig getur þetta þá gerst?

Víkur þá sögunni að Kjalarnesi. Vegagerðin fer fyrir vegabótum og uppbyggingu vegakerfisins. Hluti þeirra verkefna er boðinn út og lagt fyrir verktaka að fylgja fyrirskrift stofnunarinnar um hvernig verkið skuli innt af hendi, í því skyni að hámarka nýtingu á takmörkuðu fé sem til ráðstöfunar er í nauðsynleg verkefni. Síðla síðustu viku hafði verktaki malbikað spotta á Kjalarnesi. Svo verður um helgina þetta hörmulega atvik sem kostaði tvö mannslíf. Í Fréttablaðinu sagði umferðaröryggissérfræðingur að ljóst væri að ekki hefði verið farið eftir uppskrift við gerð malbiksins. Sambærileg blanda væri notuð til að útbúa hálkusvæði við ökuskóla í öðrum löndum.

Í fréttum hafa fyrirsvarsmenn Vegagerðarinnar sagt að stofnunin beri endanlega ábyrgð. Rannsaka þurfi bikið og senda í greiningu, helst til útlanda. Vegagerðin ætlar þannig sjálf að rannsaka málið sem hún ber ábyrgð á.

En það er ekkert nýtt að hættulegt yfirlag sé lagt út á íslenskar akbrautir. Í kjölfar kvartana varð niðurstaðan sú að fræsa ofan af flughálu yfirlagi sem lagt var á Hafnarfjarðarveg. Það var árið 2015.

Því fer fjarri að hægt sé að sætta sig við að ítrekað sé notað bik sem veldur slysahættu. Hvers vegna var þetta bik, sem öllum mátti vera ljóst að væri stórvarasamt, notað enn og aftur – að fyrirmælum Vegagerðarinnar?

Beðið verður niðurstöðu rannsókna um hvers vegna nýlagt bik varð dauðagildra. En það dugar ekki að Vegagerðin rannsaki sjálf mál sem hún hefur lýst yfir að bera ábyrgð á.

Til þess þarf einhvern annan.