Forsætisráðherra og spillingin

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, svarar spurningum fjölmiðils (Fréttavaktin /Hringbraut) um hagsmunaárekstra og spillingu á Íslandi með því að birta lista yfir bækur, minjagripi og aðrar smágjafir sem henni hafa verið færðar á forsætisráðherrastóli.

Meirihluti alþingis, æðstu valdastofnunar landsmanna, veitir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, sjálfdæmi um að velja rannsakanda þegar hann hefur sjálfur orðið uppvís að því að selja föður sínum hluti í banka í almannaeigu. Smurð maskína Sjálfstæðisflokksins hafði áður handvalið leiðandi menn í Bankasýsluna sem auðsveipir höfðu áður skrifað opinberlega um Bjarna og sýnt honum og flokknum hollustu sína.

Katrín sagði aðspurð á Fréttavaktinni á Hringbraut, að Ísland hefði nú stigið stór skref í þá átt að verða við tilmælum GRECO, samtökum Evrópuríkja gegn spillingu. En ný skýrsla GRECO sýnir að af 18 tilmælum hafi íslensk stjórnvöld aðeins orðið á fullnægjandi hátt við 6 tilmælum. Hún hafði sérstaklega á orði að átak hefði verið gert til að vinna gegn hagsmunaárekstrum og var þá áreiðanlega að hugsa um Bjarna Benediktsson og söluna á hlut almennings í Íslandsbanka, meðal annars til föður Bjarna.

Skötulíki

Öll er vinna íslenskra stjórnvalda til að bæta spillingarvarnir í skötulíki og hefur svo verið frá því að Ísland fullgilti aðild sína að GRECO 1999. Þau stunda feluleik og hafa forsómað að birta almenningi skýrslur GRECO um Ísland á íslensku svo sem áskilið er. Þær eru svo sem til á vef stjórnarráðsins á ensku nú ásamt fegrandi athugasemdum.

Við erum svona eins og annað fólk, aðrar þjóðir, og hér gæti komið upp einhver spilling sagði Katrín nokkurn veginn í umræddu viðtali.

Nei Katrín! Við erum miklu verri en til dæmis Finnar, Svíar og Danir. Stjórnvöld vinna að spillingarvörnum í hálfkæringi, vinnan er ómarkviss, handahófskennd og í skötulíki. Ekkert hefur breyst til batnaðar frá bankahruninu 2008. Framkvæmdavaldið situr brúnaþungt fyrir framan löggjafarsamkunduna og fer sínu fram, ræktar frændhyglina g kunningjaveldið. Lætur innvígða koma á framfæri við almenning að hagsmunaárekstrar séu eiginlega ekki til og að einkahagsmunir séu í raun almannahagssmunir.

Allt er þetta barnaskapur, ekki síst hjá forsætisráðherra.

Undir þrýstingi GRECO

Rifjum upp eitt mál sem Katrín hefur ef til vill gleymt.

Eftir bankahrunið varð uppvíst að FL-Group og Landsbankinn höfðu greitt samtals 55 milljónir í kosningasjóði Sjálfstæðisflokksins áður en lög voru hert um fjármál íslenskra stjórnmálaflokka í árslok 2006. Umræðan sem fylgdi í kjölfarið í fjölmiðlum gekk svo nærri forystu Sjálfstæðisflokksins fyrir þingkosningarnar 2009 að tekin ákvörðun um að skila peningunum. Þar með var á vissan hátt viðurkennt að peningarnir væru „skítugir”, mútufé eða áhrifakaup. Í eldlínunni í apríl 2009 stóð Bjarni Benediktsson, þá nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Einu og hálfu ári áður, 22. nóvember 2006, hafði Geir H. Haarde, forveri hans á formannsstóli, kynnt fjölmiðlum nýtt samkomulag um fjármál stjórnmálaflokkanna. Kjartan Gunnarsson, þáverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hafði stýrt þverpólitískri nefnd (enn ekki hver) sem eftir áralangt þóf náði sameiginlegri niðurstöðu um hert eftirlit með framlögum fyrirtækja og einstaklinga til stjórnmálaflokka. Töfin var íslenskum stjórnmálum ekki til álitsauka. Ísland var enda eftirlegukind í þessum efnum aðildarríkja að GRECO og hið endanlega samkomulag var gert undir þrýstingi frá GRECO.

Ekkert að fela?

Þegar Geir gerði fjölmiðlum grein fyrir samkomulaginu stóð Kjartan Gunnarsson við hlið hans, en hann var rétt í þann mund að ljúka 25 ára þjónustu sem framkvæmdastjóri flokksins. Kjartan var á þessum tíma einnig bankaráðsmaður í nýlega einkavæddum Landsbanka Íslands, þeim sama banka og rétt hafði Sjálfstæðisflokknum mikið fé. Hagsmunaárekstrar? Nei ekki í skilningi íslenskra stjórnmála.

Og vitanlega lýsti Geir ánægju sinni með nýjar reglur um fjármál stjórnmálaflokkanna þegar hann tjáði sig við fréttamann um sinn eigin flokk: „Við höfum ekki neitt að fela í þessu og höfum aldrei haft.“

Síðan þetta var hefur GRECO kurteislega og með embættilegum hætti sagt íslenskum stjórnvöldum trekk í trekk að þau dragi lappirnar, geri hlutina í skötulíki og verði að vinda bráðan bug að því að bæta sig.

Viðbrögðin á Íslandi nú eru þau að forsætisráðherra gerir grein fyrir því, að mestu hagsmunaárekstrar í nútímastjórnmálum á Íslandi séu líklega þeir þegar hún þarf sjálf að skrifa glæpasögu og þarf að stíga úr embætti rétt á meðan og bera málið undir Bjarna. Svona vegna mögulegra hagsmunaárekstra.

Þetta er frumstætt. Katrín og Bjarni vilja ekki læra neitt um spillingu og styðja heldur ekki neina viðleitni annarra innanlands til að hemja spillingu eða bæta spillingarvarnir.

Höfundur er stjórnarformaður Transparency International á Íslandi.