Um 90 prósent landsmanna 16 ára og eldri hafa verið bólusett gegn Covid-19. Í mörgum ríkjum heims þykir það eflaust öfundsverður árangur. Hann hefur gert okkur kleift að hefja aftur það sem kalla má eðlilegt líf í frjálsu samfélagi þar sem fólki er nokkurn veginn frjálst að koma og fara, sinna starfi og erindum, lifa og leika sér. Og að því hefur verið stefnt allt frá því að fregnir bárust af komu bóluefnisins – að færa samfélagið aftur í eðlilegt horf.

Stjórnvöld mega nefnilega eiga það að þau hafa efnt sín loforð. Eftir að hafa skert frelsi borgaranna svo um munar og sett á margs konar þvinganir sem höfðu þungbærar efnahagslegar og félagslegar afleiðingar lofuðu þau að þeim yrði aflétt um leið og færi gæfist. Það er gömul saga og ný að það er einfaldara að svipta mann frelsinu en að sleppa manni lausum sem þegar situr inni. Sporin hræða í þeim efnum. En stjórnvöld stóðust prófraunina.

Nú þegar sóttvarnalæknir hefur lýst því yfir að enn ein bylgjan sé hafin, hafa ýmsir misvitrir þegar hlaupið til og sagt að ákvarðanir stjórnvalda um aukið frelsi við landamærin og opnun skemmtistaða, svo dæmi séu tekin, hafi verið rangar og beinlínis skaðlegar. Svokölluð eftiráspeki. En hvernig má réttlæta annað en frelsi borgaranna til vinnu og athafna þegar ekkert neyðarástand ríkir?

Ákvörðun um að opna landið og aflétta sóttvarna­­aðgerðum í lok síðasta mánaðar var nefnilega hárrétt. Það ríkir ekkert neyðarástand í landinu. Þeir sem eru að smitast nú virðast ekki veikjast alvarlega. Afskaplega lítið er um sjúkrahúsinnlagnir. Engar forsendur eru fyrir því að skerða frelsi fólks eða réttindi enn sem komið er. Ef hætta fer aftur að stafa af faraldrinum getur þó þurft að taka nýjar ákvarðanir.

Það þýðir hins vegar ekki að fyrri ákvarðanir hafi verið rangar. Frelsið og réttindin eru mikilvæg. Hagkerfið og vinnumarkaðurinn skipta máli. Aðhaldið frá þeim sem gagnrýna sóttvarnaaðgerðir er nauðsynlegt.Langtímaatvinnuleysi, félagsleg einangrun og ýmis önnur vandamál sem fylgja frelsisskerðingunum geta svo líka dregið dilk á eftir sér og kostað líf og heilsu fólks, líkt og veiran. Um það vitnar tölfræði um allan heim.

Ákvarðanir yfirvalda í þessu efni eru nefnilega vandratað einstigi og verða enn meiri jafnvægislist eftir því sem tímanum vindur fram.Fáir kæra sig um að lifa á forsendum þessarar veiru til lengri tíma. Við getum ekki læst okkur inni í þeirri hugmyndafræði að æðsta markmið okkar sé að búa í veirulausum heimi um alla framtíð.

Af tvennu illu vildu flest okkar mun frekar velja frjálsan heim og opinn en ófrjálst og lokað samfélag.Höldum áfram að berjast gegn veirunni, en verum ekki hrædd við að ræða frelsið og réttindi okkar. Spyrjum spurninga og veltum upp hugmyndum. Veitum aðhald. Látum svo af upphrópunum og eftiráspeki.