Ristil- og endaþarmskrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið í heiminum og er einnig með þriðju hæstu dánartíðnina. Þetta er mikið heilsufarsvandamál og því hafa næstum öll Evrópulöndin tekið upp reglubundna skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini.

Flest landanna nota FIT-skimunarpróf sem skima eftir duldu blóði í hægðum, ef blóð greinist við skimun þá fer fólk í ristilspeglun í frekari rannsókn. FIT-skimunin er einföld og er hægt að framkvæma hana heima.

Tilgangur krabbameinsskimana er að greina krabbamein á frumstigi/forstigi og þannig lækka nýgengi sjúkdómsins sem skimað er fyrir, auka líkur á lækningu og lækka dánartíðni.

Í einföldu máli þá segir þetta okkur að því fyrr sem við finnum krabbamein, því auðveldari verður meðferðin og mun meiri líkur á bata.Langur tími getur liðið frá því að ristilkrabbameinsfrumur myndast í kirtilæxli (sepum) þar til einkenni koma fram og því er skimun nauðsynleg.

Landlæknir gaf út tilmæli árið 2001 sem mæla með skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini fyrir alla einstaklinga 50 ára og eldri, með leit að blóði í hægðum. Árið 2008 skipaði heilbrigðisráðherra ráðgjafarhóp sem átti að meta þörfina fyrir reglubundna skimun; niðurstöðurnar voru skýrar:

Það væri kostnaðarhagkvæmt og að skimunin drægi úr dánartíðni. Landlæknisembættið sendi erindi til ráðherra árið 2015 og óskaði eftir því að tilmælum ráðgjafarhópsins yrði framfylgt og undirbúningsvinna er hafin samkvæmt Landlæknisembættinu. Stefnt var að því að hefja reglubundna skimun snemma árs 2018, en hún er ekki enn hafin í dag.

Það er oft erfitt að fá fjármagn til að hefja svona verkefni. Það getur spilað inn í hve lengi við erum að sjá árangur af skimunum. Það er kostnaðarsamt að hefja slík verkefni en ágóðinn kemur ekki í ljós fyrr en mörgum árum síðar. Þeir sem settu verkefnið á laggirnar eru þá jafnvel ekki lengur við völd til að uppskera árangur erfiðisins, en þar sem þetta er stórt lýðheilsumál ætti þetta að vera á forgangslista og mun skila hagnaði eins og rannsóknir sýna.

Ég vann á almennri skurðdeild í langan tíma og hef séð með eigin augum hversu mikill munur það er að meðhöndla fólk á fyrri stigum krabbameins samanborið við á seinni stigum. Þetta eru ekki bara tölur á blaði heldur alvöru fólk sem er að ganga í gegnum erfið veikindi.

Mér finnst það samfélagsleg skylda að hefja þessa skimun sem fyrst og þetta á að vera forgangsmál fyrir lýðheilsu landsmanna.Eftir hverju er verið að bíða?