Í febrúar á þessu ári var ég, sem fulltrúi Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), skipuð af velferðarráðuneytinu í nefnd til að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði sem og aðgerðir vinnuveitenda í tengslum við slík mál á vinnustöðum. Verkefnum nefndarinnar er að mestu lokið, en fram undan er að framkvæma rannsóknir í samræmi við áherslur nefndarinnar. Í ágúst sl. var ég einnig skipuð fulltrúi FKA í aðgerðahóp, sem ætlað er að koma á fót og fylgja eftir aðgerðum á vinnumarkaði sem miða að því að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í erindisbréfi aðgerðahópsins er sérstaklega gert ráð fyrir að litið verði í því sambandi til aðgerða annarra ríkja hvað þetta varðar.

Í framhaldi af atburðarás síðustu viku, varðandi lítilsvirðandi ummæli þingmanna á hinu háa Alþingi, er ég vægast sagt mjög hugsi yfir verkefnum þessara nefnda og hvort raunhæft sé að leggja þá vinnu og hugsun í verkefnið sem nauðsynlegt er til að ná fram breytingum í samfélaginu. Klaustursmálið hefur sýnt okkur fram á það að við skerum okkur ávallt úr í samanburði við aðrar þjóðir og um okkur Íslendinga gilda einfaldlega önnur lögmál.

Nokkur dæmi um tilefni til afsagnar þingmanna og ráðherra í nágrannaríkjum okkar geta hjálpað okkur að ná samhengi hlutanna. Í sumar sagði bandaríski Repúblikaninn Jason Spencer af sér embætti ríkisþingmanns í Georgíu eftir að breski grínistinn Sacha Baron Cohen manaði Spencer til að gera óviðeigandi hluti í grínþætti sínum. Meðal þess sem hann fékk Spencer til að gera í þættinum var að öskra orðið „nigger“ ítrekað eftir að Cohen sagði honum að „n-orðið“ hefði fælingarmátt gegn hryðjuverkamönnum. Hann tók einnig myndir upp undir búrkur kvenna. Önnur dæmi um tilefni til afsagna tveggja ráðherra í sænsku ríkisstjórninni fyrir allnokkru, voru fréttir þess efnis að þeir hefðu greitt barnfóstrum sínum laun löngu áður en þeir tóku við embættum sínum, án þess að greiddir væru af þeim skattar.

Þrátt fyrir mikla leit á veraldarvefnum hef ég ekki fundið nein merki þess að þessir ráðherrar og þingmenn hafi einir og sjálfir þurft „að gera upp við sig“ hvort þeir vildu sitja sem þingmenn. Þeir eiga einfaldlega ekki annarra kosta völ en að segja af sér þegar þeir hafa verið staðnir að verki við skattsvik, kynþáttafordóma eða aðra hegðun sem telst óviðeigandi fyrir einstaklinga í þeirri stöðu sem þeir gegna.

Það er lítill tilgangur í öllum byltingum og aðgerðum til að breyta menningu og samfélagi ef þær breytingar eiga aðeins að ná til „almúgans“ í landinu en ekki þeirra sem fara með æðsta valdið; löggjafarvaldið á Íslandi. Það er vel þekkt að fyrirmyndir eru mikilvægar við mótun menningar. Ef þingmenn mega sýna fordóma á óyggjandi hátt gagnvart konum, fötluðum, samkynhneigðum og öðrum minnihlutahópum, er þá til einhvers að búa til nefndir og ráð sem ætlað er að gera breytingar á menningu í þessum málaflokki? Ef vilji er til þess að ná fram raunverulegum breytingum til jafnréttis á Íslandi, þar sem einstaklingar af hvaða kyni sem er og hvaða kynhneigð sem er eiga að upplifa sig örugga, skulum við byrja hjá þeim sem fara með völdin. Þeir sem sinna þingstörfum þurfa að lágmarki að bera virðingu fyrir þeim hópum sem þeir þjóna, auk þess sem samstarfsmenn og konur eiga að geta treyst því að þeim sé sýnd tilhlýðileg virðing.

Ef áfengi er notað sem afsökun fyrir óviðeigandi hegðun, er þá ekki grundvallaratriði að þeir sem hlut eiga að máli lýsi því yfir að þeir muni gera það sem í þeirra valdi stendur til að hætta áfengisdrykkju til að eiga ekki á hættu nýtt hneykslismál á næsta bjórkvöldi? Til þess eigum við úrræði, þó fjársvelt sé, sem stendur öllum landsmönnum til boða að nýta sér.

Ef við viljum jafnrétti þurfum við að losa Alþingi við þau viðhorf sem birtust okkur svo glögglega í Klaustursmálinu. Í fyrirtækjamenningu er þekkt aðferð sem kallast „Tone at the top“. Þá ganga stjórn og stjórnendur á undan með góðu fordæmi, sem hvetur hinn almenna starfsmann til þess að gera slíkt hið sama. Meginþorri þeirra sem sitja á Alþingi hafa sýnt okkur að þeir samþykkja ekki þá hegðun sem þessir sex einstaklingar hafa verið fordæmdir fyrir en úrræðin eru takmörkuð til aðgerða. Nú er tækifæri fyrir þá sex einstaklinga sem hlut áttu að máli, að sýna almenningi það fordæmi að þeir sem fara með æðsta vald þjóðarinnar beri virðingu fyrir fólkinu í landinu með því að segja sig frá þingstörfum án skilyrða.  

Höfundur er framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands og stjórnarkona í FKA.