Frá því Píratar fóru að ræða nýja nálgun í vímu­efna­málum fyrir tæpum ára­tug, hefur orðið við­horfs­breyting í mála­flokknum og náðu sjónar­mið Pírata meira að segja inn í stjórnar­sátt­mála ríkis­stjórnarinnar: „Snúa þarf af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkni­efna,“ segir þar meðal annars.

Fyrir tæpu ári síðan greiddi þingið at­kvæði um frum­varp Pírata um af­nám refsinga fyrir vörslu neyslu­skammta. Meiri­hlutinn felldi málið með þeim rökum að frum­varp um málið væri í vinnslu í heil­brigðis­ráðu­neytinu og vinna þyrfti málið nánar í sam­ráði við lög­reglu og aðra sem á því kunni að hafa vit­rænar skoðanir. Þing­menn stjórnar­flokkanna spöruðu þó ekki stóru orðin um stuðning sinn við stefnuna, þá mann­úðar­nálgun að hætta að refsa veiku fólki og veita því frekar að­stoð og að­hlynningu.

„Vonandi verður hægt að koma með eitt­hvert frum­varp. Og ég skal styðja það, styðja þetta mál þegar það verður lagt fram, af fullum þunga,“ sagði Halla Sig­ný Kristjáns­dóttir, þing­kona Fram­sóknar­flokksins. „Ég í­treka að við munum halda á­fram að vinna í sam­ræmi við stjórnar­sátt­málann og draga úr refsingum vegna neyslu og efla með­ferðar­úr­ræði,“ sagði Ólafur Þór Gunnars­son, þing­maður Vinstri Grænna.

„Ég fagna þeirri um­ræðu sem á sér stað um það mikil­væga mark­mið sem þetta frum­varp fjallar um, sem við erum flest hér inni sam­mála,“ sagði Vil­hjálmur Árna­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins. Svo var frum­varpið fellt.

Heil­brigðis­ráð­herra lagði svo málið fram að nýju, á grund­velli frum­varps Pírata og úr­bótum sem unnar höfðu verið á því í þinginu. Nú eru ör­fáir þingdagar eftir á þessu kjör­tíma­bili og frum­varpið situr fast í nefnd. Frum­varpið sem allir sögðust myndu styðja, að Mið­flokknum einum frá­töldum.

Í stjórnar­sátt­mála ríkis­stjórnarinnar er ekki að­eins lögð á­hersla á mann­úð­lega stefnu í vímu­efna­málum heldur einnig á sam­vinnu­stjórn­mál. „Efla þarf sam­starf milli flokka á Al­þingi,“ segir þar meðal annars og lýst er þeim vilja stjórnar­flokkanna að nálgast verk­efnin með nýjum hætti í þágu al­mennings í landinu. Þetta getur auð­vitað að­eins verið yfir­lýsing ríkis­stjórnar­flokkanna um þeirra fyrir­ætlan enda geta þeir ekki kúgað aðra flokka á þingi til sam­starfs á grund­velli stjórnar­sátt­málans.

Hins vegar er engu líkara en stjórnar­and­staðan ein hafi tekið þennan kafla stjórnar­sátt­málans til sín. Flestir flokkar í stjórnar­and­stöðu hafa verið fúsir til sam­vinnu og sýnt stjórninni til­lits­semi við þær erfiðu að­stæður sem ein­kennt hafa þetta kjör­tíma­bil. Þegar sitjandi heil­brigðis­ráð­herra lagði fram frum­varp um neyslu­rými fyrr á þessu kjör­tíma­bili studdu Píratar og fleiri flokkar hana með ráðum og dáð. Það gerðu þeir af sann­færingu og þannig á Al­þingi að virka.

Það geta því ekki talist annað en svik ef málið verður látið deyja í nefnd eftir hin fögru fyrir­heit sem fyrst komu fram í stjórnar­sátt­mála ríkis­stjórnarinnar og svo þegar málið var fellt á þingi í fyrra. Það eru svik við vímu­efna­neyt­endur, svik við kjós­endur stjórnar­flokkanna og svik við lof­orð um betri og þroskaðri stjórn­mál.