Lengi hefur því verið lofað að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði. Þetta er einatt svikið og raunar virðist enginn vilji meðal stjórnmálamanna til að koma eðlilegri skipan á íslenskan fjölmiðlamarkað.

Í síðustu viku var úthlutað 380 milljónum til einkarekinna fjölmiðla. Fjárhæðin var lækkuð milli ára, rétt eins og árið áður og lækkar enn á næsta ári.

Hins vegar er lagt til að framlög til RÚV hækki og verði 5,4 milljarðar á næsta ári. Gangi það eftir hefur ríkisframlag til RÚV verið hækkað um 720 milljónir á tveimur árum, eða nær tvöfalda þá upphæða sem ríkisstjórnin lætur hrökkva af borðum til einkarekinna miðla.

Ofan á þetta bætast auglýsingatekjur RÚV, sem námu ríflega tveimur milljörðum árið 2021.

Framlög ríkisins til minni miðla nema þetta á bilinu 8–13 prósentum og hjá vefmiðlinum Kjarnanum, sem margir kalla bloggsíðu, nemur ríkisstyrkurinn 14 prósentum kostnaðar.

Ríkisframlagið nemur á bilinu 1–2 prósentum af kostnaði hjá þremur stærstu fjölmiðlafyrirtækjum landsins, Sýn, Árvakri og Torgi. Á þetta að jafna aðstöðumuninn gagnvart RÚV?

Hvernig stendur á því að erlendir miðlar keppa á íslenskum auglýsingamarkaði án þess að þurfa að skila hér sköttum af þeirri auglýsingasölu? Dug- og dáðleysi íslenskra ráðamanna verður seint við jafnað.

Lilja Alfreðsdóttir, sem farið hefur með málefni fjölmiðla í fimm ár, hefur allan þann tíma lofað að taka til hendinni á þessum markaði en ekkert hefur gerst. Hver er hennar sýn í þessum efnum? Hefur hún yfirleitt einhverja sýn? Telur hún að ölmusa til örmiðla myndi mótvægi við RÚV?

Hvernig væri að efna margra ára gömul loforð um eðlilegt samkeppnisumhverfi á fjölmiðlamarkaði?

Einu raunhæfu aðgerðirnar til að skapa eðlilegt samkeppnisumhverfi á íslenskum fjölmiðlamarkaði felast í því að taka RÚV af auglýsingamarkaði og skikka erlenda miðla til að skila sköttum af auglýsingasölu hérlendis.

Er virkilega svona erfitt að efna einfalt loforð?