Eftir nokkrar vikur minnumst við Íslendingar þess að áratugur er liðinn frá sögulegum atburði sem hækkaði þjóðarpúlsinn um allnokkur slög og skildi víða eftir óbragð í munni. Í janúar árið 2012 komst upp að Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefði í þrettán ár selt helstu matvælaframleiðendum landsins iðnaðarsalt í afurðir sína.

Málið gat af sér eina stærstu ráðgátu síðari tíma. Þótt saltið væri ekki ætlað til manneldis heimilaði Matvælastofnun Ölgerðinni að klára að selja birgðir sínar af saltinu í matargerð.

Áherslur Matvælastofnunar voru í deiglunni á ný í vikunni þegar hulunni var svipt af hrottalegri meðferð á svo kölluðum blóðmerum hér á landi. Blóðmeri er hryssa sem hefur þann eina tilgang að ganga með folöld svo hægt sé að taka úr henni blóð á meðan hún er fylfull.

Úr blóðinu er unnið hormón í lyf sem nota má til að sæða gyltur svínabúa örar og auka þannig framleiðslugetu. Matvælastofnun hefur eftirlit með blóðmerahaldi.

„Það er auðvitað hægt að klippa saman vond augnablik,“ sagði yfirdýralæknir í hrossasjúkdómum hjá Matvælastofnun um heimildarmynd svissnesku dýraverndunarsamtakanna sem ljóstruðu upp um málið en Matvælastofnun rannsakar nú myndskeiðin.

Velferð eða verðmætasköpun?

Árið 1833 var þrælahald afnumið víðast hvar í Breska heimsveldinu. Í kjölfarið samþykktu stjórnvöld að greiða fórnarlömbunum háar fébætur. Bótaþegarnir voru þó ekki þrælarnir heldur eigendur þeirra. Nýverið kom upp á yfirborðið að greiðslum bresks almennings vegna bóta til þeirra sem höfðu hagsmuni af þrælahaldi lauk ekki fyrr en árið 2015.

Fyrr á þessu ári lagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fram frumvarp til Alþingis um breytingu á lögum um dýravelferð sem bannaði blóð­töku úr fyl­fullum merum. Þeir fóru hörðum orðum um frumvarpið sem létu sig málið varða.

Framkvæmdastjóri Ísteka, fyrirtækisins sem framleiðir lyf úr merarblóðinu, sagði í umsögn til Alþingis að verðmætasköpun fyrirtækisins væri mikil, afurðir þess væru fluttar úr landi og sköpuðu gjaldeyristekjur sem námu 1,7 milljörðum króna árið 2020.

Í umsögn dýralæknis var staðhæft að blóðmerahald væri orðið mikilvægur tekjustofn bænda sem tryggði að sveitir landsins héldust í byggð.Blóðmerahald er aðeins stundað í fjórum öðrum löndum: Kína, Argentínu, Úrúgvæ og Þýskalandi. Evrópuþingið vill stöðva blóðmerahald.

Fæstir Íslendingar höfðu heyrt um blóðmerabúskap fyrr en í þessari viku. Þeim fjölgar hratt sem kalla eftir því að hann verði bannaður.Á heimasíðu Matvælastofnunar segir að hlutverk stofnunarinnar sé að vernda „heilsu manna, dýra og plantna“ og auka „velferð og verðmætasköpun í þágu þjóðarinnar“.

En hvað gerist þegar velferð og verðmætasköpun fara ekki saman?Ein helstu rök gegn afnámi þrælahalds voru efnahagsleg. Atvinnurekendur börðust gegn afnámi þrælahalds á þeim forsendum að það myndi valda starfsemi þeirra stórtjóni.

Matvælastofnun lagðist gegn frumvarpi Ingu Sæland.

Þrælahald. Iðnaðarsalt. Blóðmerabúskapur. Ranglæti er ítrekað réttlætt með efnahagsreikningi. En íslenskur almenningur á ekki að þurfa að borða iðnaðarsalt aðeins vegna þess að einhver flutti það inn.

Athæfi sem dýraréttarlögfræðingur kallaði dýraníð í vikunni á ekki að viðgangast bara af því að einhver fann leið til að hagnast á því. Það réttlætir ekki glórulausar blóðsúthellingar að halda sveitum í byggð.

Þrælar Breska heimsveldisins sem öðluðust frelsi árið 1833 fengu aldrei bætur. Þar lauk þó ekki óréttlætinu. Afkomendur þeirra greiddu skuld við þrælahaldarana með sköttum sínum til ársins 2015. Hvað er rétt, hvað er rangt? Stundum liggur það í augum uppi.